Um 50% vill ekki nýjan spítala við Hringbraut

Tölvuteikning af nýjum Landspítala.
Tölvuteikning af nýjum Landspítala.

Um fjórðungur þjóðarinnar er fylgjandi því að nýr Landspítali rísi við Hringbraut í Reykjavík, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup vann fyrir Læknafélag Reykjavíkur. Hins vegar vill 47,6% ekki að nýr spítali rísi þar.

Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að könnunin hafi verið gerð vegna vaxandi gagnrýni á fyrirhugaða staðsetningu spítalans. Samkvæmt henni vilja einungis 26,7% landsmanna að nýr Landspítali rísi við Hringbraut en 47,8% vilja ekki að nýr spítali rísi þar. Rétt um fjórðungur (25,5%) svarenda tók ekki afstöðu til málsins.

„Lítill munur var á viðhorfum þátttakenda eftir búsetu. Samkvæmt könnuninni eru 49% Reykvíkinga andvígir því að nýr Landspítali rísi við Hringbraut en 30% eru því hlynntir. Mest mældist andstaðan meðal íbúa Breiðholtshverfis þar sem 62% eru andsnúir staðsetningunni en 22% eru henni hlynntir. Minnst er andstaðan hjá íbúum Miðbæjar og Vesturbæjar þar sem 42% eru andvíg nýjum spítala við Hringbraut en 34% eru hlynnt fyrirhugaðri staðsetningu.

Meirihluti íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, eða 53%, er andvígur fyrirhugaðri staðsetningu spítalans við Hringbraut en 25% eru henni hlynntir. Andstaðan er heldur minni hjá íbúum annarra sveitarfélaga landsins, eða 42%, en 26% eru hlynnt fyrirhugaðri staðsetningu nýs Landspítala við Hringbraut,“ segir í tilkynningunni.

„Þátttakendur í skoðanakönnuninni voru einnig spurðir hvort þeir væru hlynntir því eða andvígir að hafist verði handa við byggingu Landspítala á næstu misserum. Hverfandi munur var á afstöðu aðspurðra, en 41,4% reyndust andsnúnir því að ráðist yrði í framkvæmdir á næstu misserum, 42,1% eru því hlynntir. 16,5% svarenda tóku ekki afstöðu.

Skoðanakönnunin var gerð á tímabilinu 29. september til 5. október 2011. Úrtakið var 2.350 manns. Fjöldi svarenda var 1.416 og hlufall svarenda því 60,3%,“ segir ennfremur.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert