Guðný Jenný Ásmundsdóttir, landsliðsmarkvörður kvenna í handknattleik, þurfti að velja á milli landsliðsins, sem er að fara á heimsmeistaramót í Brasilíu, og vinnunnar, að því er segir í Fréttatímanum, sem kemur út á morgun.
Fram kemur í blaðinu að Guðný Jenný hafi unnið hjá Nýherja undanfarin fjögur ár og var henni boðin stöðuhækkun í nýrri deild gegn því að hætta í landsliðinu. Hún kaus landsliðið. Stuttu síðar var henni sagt upp störfum í bókhaldsdeild þar sem hún starfaði áður.
Fréttatíminn hefur eftir Kristni Þ. Geirssyni, aðstoðarforstjóra Nýherja, að Guðnýju hafi verið boðið að taka við starfi deildarstjóra hagdeildar Nýherja þar sem hann var á leið í fæðingarorlof. Það skilyrði hefði þó verið sett að Guðný Jenný yrði að leggja handboltann á hilluna, annars missti hún af áætlanagerð fyrirtækisins.
Síðar hafi komið í ljós að ekki yrðu næg verkefni á næsta ári í bókhaldinu og því hafi Guðnýju Jennýju verið sagt upp störfum.
Nýherji er einn af styrktaraðilum kvennalandsliðsins í handbolta.