Kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo fær ekki að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum, að sögn Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra.
Huang ætlaði meðal annars að reisa hótel á jörðinni. Ögmundur sagði við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi nú í hádeginu að umsóknin hafi borist í nafni hlutafélags en ekki í nafni fjárfestisins sjálfs. Ef umsóknin hefði hlotið brautargengi þá hefði það getað skapað slæmt fordæmi þar sem hún uppfyllti ekki lög og reglugerðir á Íslandi.
Ögmundur vildi ekki tjá sig um hvort þessi ákvörðun hafi áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið en Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, er meðal þeirra sem hafa lýst því yfir að heimila ætti Huang að kaupa jörðina. Hins vegar sagði Ögmundur í samtali við mbl.is að skiptar skoðanir hafi verið um málið í ríkisstjórninni.
Fjárfestingin var metin á 200 milljónir Bandaríkjadala
Jörðin Grímsstaðir á Fjöllum er 300 ferkílómetrar að stærð. Fjárfestingin var metin á 200 milljónir Bandaríkjadala, eða um 23 milljarða króna.
Sagði Huang á sínum tíma að tengsl sín við landið og náttúrufegurðin séu drifkrafturinn á bak við þessa fjárfestingu.
Huang er vinur Hjörleifs Sveinbjörnssonar, en þeir hafa þekkst frá árinu 1977 þegar þeir stunduðu nám við háskólann í Peking í Kína.
Huang greindi frá því fyrr í mánuðinum í viðtali við kínverska fjölmiðla að hann hafi fallið fyrir náttúrufegurð Íslands þegar hann heimsótti landið í fyrra þegar hann var gestur á ljóðahátíð í fyrra. Hann segist hafa orðið var við þann fjármálavanda sem þjóðin glímdi við og vilja manna til að fá erlenda aðila til að fjárfesta á Íslandi.
Hann sendi teymi manna til að kanna aðstæður hér og þegar Huang heimsótti landið í annað sinn var hann búinn að taka ákvörðun.
Huang er einnig ljóðskáld og hann segir að það hjálpi sér við að taka ákvarðanir í viðskiptum. „Ég valdi þennan stað á Íslandi með því að fylgja eftir eðlishvöt skáldsins fyrir fegurð,“ segir hann.
Hann bætir því við að þau verkefni, sem hafi skilað mestum hagnaði, séu þau sem tengist sínum menningarsmekk.
Í tilkynningu sem innanríkisráðuneytið hefur sent frá sér kemur fram að innanríkisráðuneytið hefur svarað beiðni Beijing Zhongkun Investment Group frá 31. ágúst um að veitt verði undanþága frá lögum vegna kaupa á hlut í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum, alls 30.639 hektara landsvæði. Vegna umfjöllunar um málið vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi.
„Um heimild til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi er nánar fjallað í lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966 með síðari breytingum. Í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna er félagi þar sem enginn félaga ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins eða stofnun óheimilt að eignast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi nema félagið eða stofnunin eigi heimilisfang og varnarþing á Íslandi og allir stjórnendur séu íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár. Í hlutafélögum skulu 4/5 hlutar hlutafjár vera eign íslenskra ríkisborgara og íslenskir ríkisborgarar fara með meirihluta atkvæða á hluthafafundum. Í þessu felst nánar að sé þess óskað að hlutafélag fái að eignast fasteign hér á landi, og það fellur ekki undir undantekningarákvæði 1. tölul. eða 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966, þarf það að uppfylla eftirtalin fjögur skilyrði laganna til að svo geti orðið:
1. Félagið skal eiga heimilisfang og varnarþing á Íslandi.
2. Allir stjórnendur félagsins skulu vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi í a.m.k. fimm ár.
3. 4/5 hlutar hlutafjár félagsins skulu vera í eigu íslenskra ríkisborgara.
4. Íslenskir ríkisborgarar skulu fara með meirihluta atkvæða á hluthafafundum.
Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1966 getur innanríkisráðherra, svo sem fyrr greinir, veitt leyfi til að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 1. gr. laganna ef annars þykir ástæða til. Er hér um að ræða undanþáguákvæði sem ber samkvæmt almennum lögskýringarreglum að túlka þröngt. Telur ráðuneytið mikilvægt að við beitingu þess sé litið til markmiðs laga nr. 19/1966 og forvera þeirra, samnefndra laga nr. 63/1919, en af lögskýringargögnum verður ráðið að talið hafi verið að takmarkanir útlendinga til þess að öðlast réttindi yfir fasteignum á Íslandi væru nauðsynlegar til þess að standa vörð um sjálfstæði eða fullveldi landsins og möguleika Íslendinga til að njóta sjálfir arðs af auðlindum sínum.
Að mati ráðuneytisins verður ekki horft framhjá því hversu stórt landsvæði er um að ræða sem félagið hyggst kaupa, eða 30.639 hektarar, og að engin fordæmi eru fyrir því að jafnstórt landsvæði á Íslandi hafi verið fært undir erlend yfirráð. Telur ráðuneytið það ekki samrýmanlegt tilgangi og markmiði laga nr. 19/1966 að ráðherra veiti leyfi til þess að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 1. gr. laganna þegar um jafnstórt svæði er að ræða.
Einnig ber að hafa í huga að ákvæðið setur fyrir því ströng skilyrði að hlutafélög megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir íslenskum fasteignum og er ljóst að umrætt félag uppfyllir ekkert þeirra. Telur ráðuneytið því að í máli þessu séu aðstæður með þeim hætti að ef leyfi væri veitt til undanþágu frá lögunum væri vikið svo langt frá þeirri meginreglu sem 1. mgr. 1. gr. mælir fyrir um, að ekki sé réttlætanlegt.
Niðurstaða ráðuneytisins er sú að ekki þyki ástæða til fyrir innanríkisráðherra að veita Beijing Zhongkun Investment Group leyfi til að víkja frá skilyrðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna og kaupa 72,19% eignarhlut í óskiptri heildareign jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum. Er beiðni félagsins þar að lútandi því hafnað," segir í tilkynningu innanríkisráðuneytisins.