Beiðni Huangs synjað

00:00
00:00

Kín­verski kaup­sýslumaður­inn Huang Nubo fær ekki að kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöll­um, að sögn Ögmund­ar Jónas­son­ar, inn­an­rík­is­ráðherra.

Huang ætlaði meðal ann­ars að reisa hót­el á jörðinni. Ögmund­ur sagði við frétta­menn að lokn­um rík­is­stjórn­ar­fundi nú í há­deg­inu að um­sókn­in hafi borist í nafni hluta­fé­lags en ekki í nafni fjár­fest­is­ins sjálfs. Ef um­sókn­in hefði hlotið braut­ar­gengi þá hefði það getað skapað slæmt for­dæmi þar sem hún upp­fyllti ekki lög og reglu­gerðir á Íslandi.

Ögmund­ur vildi ekki tjá sig um hvort þessi ákvörðun hafi áhrif á rík­is­stjórn­ar­sam­starfið en Árni Páll Árna­son, efna­hags- og viðskiptaráðherra, er meðal þeirra sem hafa lýst því yfir að heim­ila ætti Huang að kaupa jörðina. Hins veg­ar sagði Ögmund­ur í sam­tali við mbl.is að skipt­ar skoðanir hafi verið um málið í rík­is­stjórn­inni.

Fjár­fest­ing­in var met­in á 200 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala

Jörðin Grímsstaðir á Fjöll­um er 300 fer­kíló­metr­ar að stærð. Fjár­fest­ing­in var met­in á 200 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala, eða um 23 millj­arða króna.

Sagði Huang á sín­um tíma að tengsl sín við landið og nátt­úru­feg­urðin séu drif­kraft­ur­inn á bak við þessa fjár­fest­ingu.

Huang er vin­ur Hjör­leifs Svein­björns­son­ar, en þeir hafa þekkst frá ár­inu 1977 þegar þeir stunduðu nám við há­skól­ann í Pek­ing í Kína.

Huang greindi frá því fyrr í mánuðinum í viðtali við kín­verska fjöl­miðla að hann hafi fallið fyr­ir nátt­úru­feg­urð Íslands þegar hann heim­sótti landið í fyrra þegar hann var gest­ur á ljóðahátíð í fyrra. Hann seg­ist hafa orðið var við þann fjár­mála­vanda sem þjóðin glímdi við og vilja manna til að fá er­lenda aðila til að fjár­festa á Íslandi.

Hann sendi teymi manna til að kanna aðstæður hér og þegar Huang heim­sótti landið í annað sinn var hann bú­inn að taka ákvörðun.

Huang er einnig ljóðskáld og hann seg­ir að það hjálpi sér við að taka ákv­arðanir í viðskipt­um. „Ég valdi þenn­an stað á Íslandi með því að fylgja eft­ir eðlis­hvöt skálds­ins fyr­ir feg­urð,“ seg­ir hann.

Hann bæt­ir því við að þau verk­efni, sem hafi skilað mest­um hagnaði, séu þau sem teng­ist sín­um menn­ing­arsmekk.

Hefði verið án for­dæma

Í til­kynn­ingu sem inn­an­rík­is­ráðuneytið hef­ur sent frá sér kem­ur fram að inn­an­rík­is­ráðuneytið hef­ur svarað beiðni Beij­ing Zhongk­un In­vest­ment Group frá 31. ág­úst um að veitt verði und­anþága frá lög­um vegna kaupa á hlut í jörðinni Gríms­stöðum á Fjöll­um, alls 30.639 hekt­ara landsvæði. Vegna um­fjöll­un­ar um málið vill ráðuneytið taka fram eft­ir­far­andi.

„Um heim­ild til að öðlast eign­ar­rétt eða af­nota­rétt yfir fast­eign­um á Íslandi er nán­ar fjallað í lög­um um eign­ar­rétt og af­nota­rétt fast­eigna nr. 19/​1966 með síðari breyt­ing­um. Í sam­ræmi við 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. lag­anna er fé­lagi þar sem eng­inn fé­laga ber fulla ábyrgð á skuld­um fé­lags­ins eða stofn­un óheim­ilt að eign­ast eign­ar­rétt eða af­nota­rétt yfir fast­eign­um hér á landi nema fé­lagið eða stofn­un­in eigi heim­il­is­fang og varn­arþing á Íslandi og all­ir stjórn­end­ur séu ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar eða með lög­heim­ili á Íslandi sam­fellt í a.m.k. fimm ár. Í hluta­fé­lög­um skulu 4/​5 hlut­ar hluta­fjár vera eign ís­lenskra rík­is­borg­ara og ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar fara með meiri­hluta at­kvæða á hlut­hafa­fund­um. Í þessu felst nán­ar að sé þess óskað að hluta­fé­lag fái að eign­ast fast­eign hér á landi, og það fell­ur ekki und­ir und­an­tekn­ing­ar­á­kvæði 1. tölul. eða 2. tölul. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 19/​1966, þarf það að upp­fylla eft­ir­tal­in fjög­ur skil­yrði lag­anna til að svo geti orðið:

1.   Fé­lagið skal eiga heim­il­is­fang og varn­arþing á Íslandi.

2.   All­ir stjórn­end­ur fé­lags­ins skulu vera ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar eða með lög­heim­ili á Íslandi í a.m.k. fimm ár.

3.   4/​5 hlut­ar hluta­fjár fé­lags­ins skulu vera í eigu ís­lenskra rík­is­borg­ara.

4.   Íslensk­ir rík­is­borg­ar­ar skulu fara með meiri­hluta at­kvæða á hlut­hafa­fund­um.

Sam­kvæmt 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 19/​1966 get­ur inn­an­rík­is­ráðherra, svo sem fyrr grein­ir, veitt leyfi til að víkja frá skil­yrðum 1. mgr. 1. gr. lag­anna ef ann­ars þykir ástæða til. Er hér um að ræða und­anþágu­ákvæði sem ber sam­kvæmt al­menn­um lög­skýr­ing­ar­regl­um að túlka þröngt. Tel­ur ráðuneytið mik­il­vægt að við beit­ingu þess sé litið til mark­miðs laga nr. 19/​1966 og for­vera þeirra, sam­nefndra laga nr. 63/​1919, en af lög­skýr­ing­ar­gögn­um verður ráðið að talið hafi verið að tak­mark­an­ir út­lend­inga til þess að öðlast rétt­indi yfir fast­eign­um á Íslandi væru nauðsyn­leg­ar til þess að standa vörð um sjálf­stæði eða full­veldi lands­ins og mögu­leika Íslend­inga til að njóta sjálf­ir arðs af auðlind­um sín­um. 

Að mati ráðuneyt­is­ins verður ekki horft fram­hjá því hversu stórt landsvæði er um að ræða sem fé­lagið hyggst kaupa, eða 30.639 hekt­ar­ar, og að eng­in for­dæmi eru fyr­ir því að jafn­stórt landsvæði á Íslandi hafi verið fært und­ir er­lend yf­ir­ráð. Tel­ur ráðuneytið það ekki sam­rýman­legt til­gangi og mark­miði laga nr. 19/​1966 að ráðherra veiti leyfi til þess að víkja frá skil­yrðum 1. mgr. 1. gr. lag­anna þegar um jafn­stórt svæði er að ræða.

Einnig ber að hafa í huga að ákvæðið set­ur fyr­ir því ströng skil­yrði að hluta­fé­lög megi öðlast eign­ar­rétt eða af­nota­rétt yfir ís­lensk­um fast­eign­um og er ljóst að um­rætt fé­lag upp­fyll­ir ekk­ert þeirra. Tel­ur ráðuneytið því að í máli þessu séu aðstæður með þeim hætti að ef leyfi væri veitt til und­anþágu frá lög­un­um væri vikið svo langt frá þeirri meg­in­reglu sem 1. mgr. 1. gr. mæl­ir fyr­ir um, að ekki sé rétt­læt­an­legt.

Niðurstaða ráðuneyt­is­ins er sú að ekki þyki ástæða til fyr­ir inn­an­rík­is­ráðherra að veita Beij­ing Zhongk­un In­vest­ment Group leyfi til að víkja frá skil­yrðum 4. tölul. 1. mgr. 1. gr. lag­anna og kaupa 72,19% eign­ar­hlut í óskiptri heild­ar­eign jarðar­inn­ar Grímsstaða á Fjöll­um. Er beiðni fé­lags­ins þar að lút­andi því hafnað," seg­ir í til­kynn­ingu inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert