Brjáluð ákvörðun

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

„Mér finnst þetta brjáluð ákvörðun,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, og vísar til ákvörðunar Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um að hafna að selja félagi í eigu fjárfestisins Huangs Nubo Grímsstaði á Fjöllum.

„Þetta eru hræðileg skilaboð út í heim á tímum þegar okkur sárvantar erlenda fjárfestingu,“ segir Sigmundur Ernir og bendir á að til staðar séu 25 fordæmi þar sem útlendingum hafi verið veittar heimildir til landakaupa hér á landi.

„Mér finnst staðið af þröngsýni í þessu máli og ég efa það að innanríkisráðherra sé hæfur til þess að taka þessa ákvörðun miðað við það sem hann hefur látið frá sér fara um málið fram til þessa.“

Sigmundur Ernir segist formlega hafa óskað eftir því að skipaður verði starfshópur í þingflokki Samfylkingar til að fara gaumgæfilega yfir málið og ákvörðun innanríkisráðherra. Segist hann jafnframt eiga von á því að Ögmundur verði kallaður til fundar við starfshópinn. 

„Það er orðið mjög erfitt að styðja stjórn sem fer fram með þessum hætti. [...] Það er bara þannig í þessu héraði að það má varla gera göng, nota orkuna eða eitthvað annað,“ segir Sigmundur Ernir og bætir við að hann telji máli þessu vera engan veginn lokið.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert