Kanni áhuga Huang á fjárfestingum

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason, alþingismaður VG, hvetur til þess að menn setjist niður og kanni hvort Huang Nubo sé tilbúinn til að fjárfesta í ferðamannaþjónustu þó ekkert verði af kaupum á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann styður ákvörðun innanríkisráðherra í málinu.

„Ákvörðun innanríkisráðherra að hafna því að veita kínverska fyrirækinu Beijing Zhongkun Investment Group að undanþágu frá lögum til að kaupa 0,3% af landinu undir hótel er umdeild eins og gefur að skilja. Líklega hafa þó allir ráðherrar úr hvaða flokki sem er komist að sömu niðurstöðu. Slíkar ákvarðanir eru ekki byggðar á persónulegu mati þess einstaklings sem situr í ráðuneytinu hverju sinni, heldur á því lagaverki sem gildir í landinu eins og vera ber.


Hinsvegar snýr þetta mál eingöngu að sölu á landi til erlendra aðila. Og það engum smá skika. Eftir stendur hvort Nubo og hans félagar séu tilbúnir að fjárfesta í íslenskum ferðamannaiðnaði, reisa til þess hótel og golfvelli eða með öðrum hætti sem þeim þykir best að gera. Til þess þurfa þeir aðilar ekki að eignast land sem fjárfestingar þeirra standa á frekar en aðrir.


Það hefur því opnast nýr flötur á málinu. Hann snýr að því hvort áhugi þessa tiltekna kínverska aðila snýr að því að fjárfestina í ferðamannabransanum – eða hvort það voru landakaupin sjálf sem freistuðu hans. Af þeim sökum hefur málið opnast upp í skýrari ljósi en áður og möguleikarnir greinilegri en áður.
Nú er því rétt að aðilar málsins setjist niður og fái úr þessu skorið. Og haldi ró sinni á meðan,“ segir Björn Valur.

Pistill Björns Vals

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert