„Mér finnst þetta illa ígrunduð ákvörðun,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar, um þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hafna umsókn Huang Nubo um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
„Þetta hefði alveg gríðarlega mikla þýðingu fyrir okkur,“ segir Aðalsteinn. „Þarna er verið að tala um að fjárfesta fyrir milljarða og með það í huga að auka ferðaþjónustuna og byggja hana upp á ársgrundvelli. Við búum svo vel að vera eitt eftirsóknaverðasta svæði landsins hvað varðar náttúru en í dag er ferðaþjónustan mjög öflug þrjá mánuði ársins og svo búið.“
Aðalsteinn bendir enn fremur á að þarna hefði líka skapast tækifæri til þess að ná til nýs markaðar, Kína, sem hefði ekki tekist að neinu marki áður.
Aðalsteinn segir sér virðast sem allt vinni gegn atvinnuuppbyggingu á svæðinu og sakar stjórnvöld um einelti. Hann hafi skilning á því að menn vilji stíga varlega til jarðar en segir að skynsamlegra hefði verið að ganga að samningaviðræðum frekar en að loka alveg á fjárfestinn.
„Ég er ekki stóreygur yfir þessu né að segja að þetta eigi að vera hindrunarlaust, að menn eigi bara að geta keypt upp Ísland. En hafi verið einhver vilji til þess að skoða það með honum hvort það væri grundvöllur til þess að koma til móts við hann að einhverju leyti og síðan myndi hann koma til móts við aðstæður okkar hér, þá hefði það kannski getað leitt til þess að báðir aðilar yrðu sáttir. Eða þá að þetta hefði bara sprungið og ekki orðið að neinu. En mér finnst að með þessu sé Ögmundur að gefa honum kinnhest í stað þess að byrja á að athuga hvort ekki væri hægt að komast að málamiðlun,“ segir Aðalsteinn.