Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, segir ákvörðun innanríkisráðherra, að hafna beiðni Huangs Nubo, um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum vera mikil vonbrigði.
„Nú verða menn að vonast til þess að ríkisstjórnin komi Vaðlaheiðargöngum af stað, vegna þess að það er eina verkefnið sem getur skapað umsvif og atvinnu, sem ekki hefur verið slegið út af borðinu í Norðausturkjördæmi,“ segir Höskuldur.
Segir hann heimamenn hafa vonast til þess að uppbygging myndi eiga sér stað á svæðinu, fengi Huang að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
„Við hefðum kosið að menn hefðu reynt að ná fram jákvæðri niðurstöðu en svo virðist vera að vilja til þess hafi skort,“ segir Höskuldur og bætir við að ríkisstjórnin þurfi heldur betur að spýta í lófana gagnvart þessu svæði.