Fyrirhugaðar hækkanir og breytingar á kolefnisgjaldi munu skila ríkissjóði milljörðum króna á næstu árum. Með hækkun kolefnisgjalds um áramótin gætu tekjur ríkissjóðs numið 2,4 milljörðum króna á næsta ári.
Þar af má ætla að um 1,4 milljarðar króna komi frá útgerðinni, að sögn hagfræðings LÍÚ. Gjaldið sem flugfélögin þurfa að greiða skiptir hundruðum milljóna króna.
Í ársbyrjun 2013 verður lagt gjald á losun kolefna af jarðefnauppruna í föstu formi, m.a. af rafskautum. Samtök álframleiðenda telja að árið 2013 muni álverin þrjú og Elkem á Grundartanga greiða 1,8 milljarða og með stighækkandi gjaldi til 2015 muni sú fjárhæð fara í 3,7 milljarða. Segja samtökin þessar tölur varlega áætlaðar, þær geti orðið mun hærri.
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að talsmenn atvinnulífsins eru mjög ósáttir við fyrirhugaða gjaldtöku á stóriðjuna. Telja að um tvísköttun sé að ræða og brot á samkomulagi sem gert var við stjórnvöld í lok árs 2009 til þriggja ára. Í bréfi sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ritaði til forstjóra Alcan á Íslandi fyrir rúmu ári segir m.a. að ekki standi annað til en að virða umrætt samkomulag. Ekki verði lagðir frekari skattar á stórnotendur raforku á gildistímanum. Ekki séu heldur uppi önnur áform um sértækar skattabreytingar sem tengjast stóriðjufyrirtækjunum einum.