Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vera að íhuga hvort hann haldi áfram stuðningi við ríkisstjórnina. Hann sagði þetta í Kastljósi í kvöld þar sem rædd var ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hafna umsókn um Huang Nubo um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.
Sigmundur Ernir var mjög harðorður í garð innanríkisráðherra. Hann sagði að þetta væri galin ákvörðun og efaðist um lagalegar forsendur hennar. Hann sagði eðlilegt að leitað yrði til óháðra lögfræðinga um mat á lögunum. Ákvörðunin færi gegn þjóðarhag og hún væri tekin aðeins til að þjóna hópi innan VG.
Þegar Sigmundur Ernir var spurður hvort hann styddi áfram ríkisstjórnina sagði hann: „Ég tek meiri hagsmuni fram yfir minni. Við erum í miðjum klíðum að endurreisa þetta samfélag eftir hrikalega hagsstjórn síðustu 20 ára. Þetta mál er ekki hluti af stjórnarsáttmála landsins að öðru leyti en því að við ætluðum að auka hér erlenda fjárfestingu sem Ögmundur Jónasson er að hafna með þessum hætti. Ég ætla að hugsa málið. Ég tel að þetta kunni að vera kornið sem fyllir mælinn.“
Ögmundur sagði að hann hefði farið að lögum þegar hann tók þessa ákvörðun. Allir lögfræðingar ráðuneytisins hefðu verið sammála um hvernig ætti að túlka lögin. Hann sagði að ef menn vildu opna fyrir kaup útlendinga á landi þá ættu menn að taka um það umræðu og breyta lögunum, en ekki fara á svig við þau líkt og gert var fyrir hrun.