Reyndi að skríða út um framgluggann

Flugvélin á hvolfi á flugbrautinni. Myndin er úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Flugvélin á hvolfi á flugbrautinni. Myndin er úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Flugmaður lítillar vélar, sem fauk á hvolf á Ísafjarðarflugvelli í sumar, reyndi að skríða út um framgluggann en gatið á brotinni rúðunni reyndist vera of þröngt þannig að hann komst aðeins hálfur út og varð svo að skríða aftur inn í flugvélina.

Fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa um óhappið, að farþega og  flugmanninum hafi síðan tekist að opna hægri dyrnar og farþeginn komst þar út. Þegar farþeginn var kominn út skreið flugmaðurinn aftur í til að losa tveggja ára barn, sem einnig var í vélinni, úr barnabílstól, og rétti svo farþeganum barnið út um framdyrnar. Engan sakaði við óhappið.

Að mati rannsóknarnefndarinnar var ekkert flugveður fyrir flugvélina á Ísafjarðarflugvelli þegar þetta gerðist. Mjög hvasst var og síritar á flugvellinum skráðu vindhviður upp í 48 hnúta kl. 20.45 þegar flugmaðurinn var að aka flugvélinni í brautarstöðu. Vindstefnan var einnig mjög breytileg.

Við undirbúning flugsins fyrr um daginn aflaði flugmaðurinn sér upplýsinga um veður á
vef Veðurstofunnar, vedur.is. Samkvæmt þeim upplýsingum áttu mestu vindhviður að vera 25 hnútar. Flugmaðurinn varð að fresta brottför og aflaði sér ekki nýrra veðurupplýsinga áður en hann lagði af stað um kvöldið sama dag.

Skýrsla Rannsóknarnefndar flugslysa

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert