Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segist ekki líta svo á að það hafi verið hlutverk innanríkisráðuneytisins að svara umsókn Huangs Nubos um kaup á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum með gagntilboði eða samningaviðræðum. Huang hefur gagnrýnt að enginn hafi óskað eftir viðræðum við hann um fyrirkomulag kaupanna.
„Við erum ekki vön því að standa í samningaviðræðum til þeirra sem leita til ráðuneytisins. Menn koma með skýrt erindi og það er síðan afgreitt og þá skiptir ekki máli hvort menn hafa mikla peninga á milli handanna eða ekki,“ segir Ögmundur.
Aðspurður hvort hann hefði getað hugsað sér aðrar leiðir til uppbyggingar á svæðinu í samvinnu við Huang, s.s. með því að ríkið keypti hluta jarðarinnar til móts við hann og leigði honum til afnota segir hann að aðeins hafi verið litið til þeirrar umsóknar sem ráðuneytinu barst en ekki annarra möguleika.
„Sannleikurinn er sá að það skorti svo mikið upp á að þessi umsókn standist. Í fyrsta lagi er rangt að líta á þetta sem umsókn einstaklings um kaup á landi. Þetta er hlutafélag sem er að óska eftir þessum viðskiptum og um það gilda sérstakar reglur sem þetta félag uppfyllir að engu leyti. Mér finnst það svolítið undarlegt að menn vilji að lög og reglur víki ef þeir telja að einhverjir stundarhagsmunir séu í húfi. Ef að mönnum finnst lögin standa í vegi fyrir slíkum hagsmunum þá þarf að taka lögin til endurskoðunar.“
Telur þú enga eftirsjá að svo umfangsmikilli fjárfestingu sem nú lítur út fyrir að beint verði annað en til Íslands?
„Ég vil að íslensk lög sé virt og hef sagt að mér finnst sjálfum það vera áhyggjuefni ef eignarhald á landi fer út fyrir landsteinana, það er nokkuð sem að ég hef alla tíð verið andvígur. Eignarhaldi á landi fylgir yfirráð yfir auðlindum og það er margt sem hangir á spýtunni,“ segir Ögmundur. „Maður hefur heyrt mjög marga hafa áhyggjur af því að víðerni Íslands fari að ganga kaupum og sölum til einkaaðila, hvað þá erlendra hlutafélaga. Þetta er erlent hlutafélag og þá gilda aðrar reglur og skilyrðin standast á engan hátt, hvort sem landið hefði verið stórt eða minna.“