Frost var á öllu landinu í nótt og er víða hálka á vegum og því ástæða fyrir bílstjóra að fara varlega í umferðinni. Að sögn Vegagerðarinnar er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum og einnig hálka, hálkublettir eða snjóþekja víða á Suðurlandi og Reykjanesi.
Á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á öllum helstu leiðum. Éljagangur er í Borgarfirði og á norðanverðu Snæfellsnesi.
Austanlands er snjóþekja eða hálka og á Suðausturlandi eru hálkublettir og snjóþekja. Éljagangur er í kringum Vík.
Næsta sólarhringinn er von á suðlægri eða breytilegri átt, að sögn Veðurstofu Íslands. Dálítil él verða sunnan- og vestanlands við austurströndina, en annars víða léttskýjað. Frost verður 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.