Ákveðið var í nótt að fella niður fyrri ferð Herjólfs, sem fara átti frá Vestmannaeyjum klukkan 8.00 í dag, vegna bilunar í stýrisbúnaði sem kom upp í ferjunni í gær. Farþegar sem áttu bókaða miða með ferjunni fengu tilkynningu í gær um að óvíst væri með ferðina.
Á heimasíðu Eimskipa kemur fram að unnið sé að viðgerð en hún muni taka lengri tíma en svo að hægt sé að sigla a.m.k. fyrri ferðina. Enn er óljóst með seinni ferðina í dag og eru farþegar beðnir um að fylgjast með fréttum á herjolfur.is, Facebook-síðu Herjólfs og síðu 415 í Textavarpi.
Herjólfur hefur síðustu daga siglt til Þorlákshafnar vegna grynninga í Landeyjahöfn.