Huang Nubo er hættur við

Huang Nubo vill er hættur við fjárfestingaráform sín á Íslandi.
Huang Nubo vill er hættur við fjárfestingaráform sín á Íslandi. Ernir Eyjólfsson

Huang Nubo er hætt­ur við fyr­ir­ætlan­ir sín­ar um fjár­fest­ing­ar á Íslandi. Talsmaður Huangs á Íslandi seg­ir að hann ætli sér ekki að reyna að hnekkja niður­stöðu ís­lenska rík­is­ins, en seg­ir jafn­framt von­brigði að ákvörðunin hafi verið al­gjör­lega ein­hliða án nokk­urr­ar til­raun­ar til samn­ingaviðræðna.  

„Hans viðbrögð eru þau að ef ís­lensk lög eru þannig að þau heim­ili ekki fjár­fest­ingu hans hér á landi þá er það bara þannig og hann unir þeirri niður­stöðu. Hann mun ekki sækja breyt­ingu á því, en þar með eru skila­boðin þau að það er ekki rými fyr­ir fjár­fest­ingu hans á Íslandi,“ seg­ir Hall­dór Jó­hanns­son arki­tekt og talsmaður Huangs.

Aðspurður hvort ekki komi til greina af hálfu Huangs að leita annarra lausna, s.s. með minni um­svif­um, seg­ir Hall­dór að hann muni ekki eiga frum­kvæði að því. „Ég held að það séu eðli­leg viðbrögð að það sé ekki hans að sækja það. Hann lagði upp í upp­hafi drög að sam­starfs­samn­ingi milli fyr­ir­tæk­is síns og rík­is­ins þar sem hann bauð upp á sam­ráð, en viðbrögð við því voru núll. Þar var meðal ann­ars sagt að hann væri til­bú­inn að af­sala sér vatns­rétt­ind­um og gera hluta af jörðinni að þjóðgarði, en við þessu feng­ust eng­in viðbrögð.

Þetta vek­ur að sjálf­sögðu upp spurn­ing­ar, þegar á ann­an kant­inn er talað um mik­il­vægi er­lendra fjár­fest­inga, en svo þegar sýnd­ur er áhugi er sagt að þetta sé of gott til að vera satt og þeim hafnað.“

Huang hafi sjálf­ur talið sig nálg­ast Ísland af vin­skap og með allt uppi á borðinu. „Það var ljóst í upp­hafi að hann hafði eng­an áhuga á því að fara ein­hverja bak­dyra­leið, það kom aldrei til greina,“ seg­ir Hall­dór. „Allt tal og moldviðri í þá átt að það hafi átt að vinna þetta eft­ir ein­hverj­um öðrum hvöt­um en komn­ar eru fram á ekki við rök að styðjast. Hann hef­ur sótt til ís­lenskra ráðgjafa og lög­fræðinga, þekk­ir vel til ís­lenskr­ar vinnu­lög­gjaf­ar og hafði full­an hug á því að vinna í sam­ræmi við hana.“

Hall­dór seg­ist sjálf­ur vera mjög von­svik­inn fyr­ir hönd Norður­lands. „Og ekk­ert síður fyr­ir hönd þeirra ein­stak­linga sem þarna sáu mögu­leika á að selja eign sína. Mér finnst þeir svo­lítið hafa gleymst þegar talað er um að þetta sé eign þjóðar­inn­ar. Auðvitað er þetta fyrst og fremst þeirra eign sem þeir hljóta að eiga rétt á því að selja.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert