Huang Nubo er hættur við fyrirætlanir sínar um fjárfestingar á Íslandi. Talsmaður Huangs á Íslandi segir að hann ætli sér ekki að reyna að hnekkja niðurstöðu íslenska ríkisins, en segir jafnframt vonbrigði að ákvörðunin hafi verið algjörlega einhliða án nokkurrar tilraunar til samningaviðræðna.
„Hans viðbrögð eru þau að ef íslensk lög eru þannig að þau heimili ekki fjárfestingu hans hér á landi þá er það bara þannig og hann unir þeirri niðurstöðu. Hann mun ekki sækja breytingu á því, en þar með eru skilaboðin þau að það er ekki rými fyrir fjárfestingu hans á Íslandi,“ segir Halldór Jóhannsson arkitekt og talsmaður Huangs.
Aðspurður hvort ekki komi til greina af hálfu Huangs að leita annarra lausna, s.s. með minni umsvifum, segir Halldór að hann muni ekki eiga frumkvæði að því. „Ég held að það séu eðlileg viðbrögð að það sé ekki hans að sækja það. Hann lagði upp í upphafi drög að samstarfssamningi milli fyrirtækis síns og ríkisins þar sem hann bauð upp á samráð, en viðbrögð við því voru núll. Þar var meðal annars sagt að hann væri tilbúinn að afsala sér vatnsréttindum og gera hluta af jörðinni að þjóðgarði, en við þessu fengust engin viðbrögð.
Þetta vekur að sjálfsögðu upp spurningar, þegar á annan kantinn er talað um mikilvægi erlendra fjárfestinga, en svo þegar sýndur er áhugi er sagt að þetta sé of gott til að vera satt og þeim hafnað.“
Huang hafi sjálfur talið sig nálgast Ísland af vinskap og með allt uppi á borðinu. „Það var ljóst í upphafi að hann hafði engan áhuga á því að fara einhverja bakdyraleið, það kom aldrei til greina,“ segir Halldór. „Allt tal og moldviðri í þá átt að það hafi átt að vinna þetta eftir einhverjum öðrum hvötum en komnar eru fram á ekki við rök að styðjast. Hann hefur sótt til íslenskra ráðgjafa og lögfræðinga, þekkir vel til íslenskrar vinnulöggjafar og hafði fullan hug á því að vinna í samræmi við hana.“
Halldór segist sjálfur vera mjög vonsvikinn fyrir hönd Norðurlands. „Og ekkert síður fyrir hönd þeirra einstaklinga sem þarna sáu möguleika á að selja eign sína. Mér finnst þeir svolítið hafa gleymst þegar talað er um að þetta sé eign þjóðarinnar. Auðvitað er þetta fyrst og fremst þeirra eign sem þeir hljóta að eiga rétt á því að selja.“