Huang snýr sér til Finnlands og Svíþjóðar

Huang Nubo.
Huang Nubo.

Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að hafna fjárfestingu Huangs Nubos í Grímsstöðum á Fjöllum er fljótfærnisleg og óábyrg og endurspeglar ósanngjarnt og einangrað fjárfestingaumhverfi. Þetta fullyrðir Huang við kínverska vefmiðilinn China Daily.

„Þessi höfnun endurspeglar ósanngjarnt og einangrað fjárfestingaumhverfi sem kínversk fyrirtæki þurfa að eiga við í útlöndum,“ er haft eftir Huang í einkaviðtali í höfuðstöðvum fyrirtækis hans, Zhongkun Investment Group, í Peking í dag. Huang segir að ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra þýði mikið tap fyrir bæði Ísland og kínverska fjárfesta.

Huang segir að sér hafi borist fréttin um að fjárfestingunni væri hafnað klukkan 4 um nótt að kínverskum tíma, aðfaranótt laugardags. Enginn hafi óskað eftir viðræðum við hann fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar. Hann bendir á að það hafi verið landeigendurnir sjálfir sem áttu frumkvæði að því að bjóða honum til sölu 300 ferkílómetra jörð á Grímsstöðum á Fjöllum.

Sjálfur segist hann ekki tapa neinu með þessum málalyktum, en þær séu hinsvegar markverðar vegna þess að þær undirstriki þá fordóma sem kínverskir fjárfestar þurfi að mæta á erlendri grundu. „Það er enn tvöfalt siðferði í gangi,“ hefur China Daily eftir honum. Vesturlönd séu áköf í að „hvetja til opnunar kínverskra markaða en loki um leið eigin dyrum fyrir kínverskum fjárfestingum.“

Huang segir ástæðu til að vara aðra kínverska fjárfesta við því að fara inn á alþjóðlegan markað fyrr en þeir hafi kynnt sér rækilega pólitíska umhverfið fyrst. Hér eftir hyggist hann sjálfur beina fjárfestingum sínum til Bandaríkjanna og annarra Norðurlanda en Íslands. Nefnir hann Svíþjóð og Finnland í því samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert