Jólasveinarnir komnir á stjá í Dimmuborgum

Hress jólasveinn.
Hress jólasveinn. mbl.is/Birkir Fanndal

Það var fegursta vetrarveður, logn og 10 stiga frost, þegar jólasveinarnir byrjuðu jólavertíðina í Dimmuborgum eftir hádegi í dag. Kveiktur var varðeldur og kröftuglega sungin jólalög þar sem söngfélagið Sálubót hjálpaði til við sönginn.

Fjölmenni var í borgunum til að gleðjast með þeim bræðrum. Að þessu sinni voru sjö sveinar mættir en tveir voru fjarri góðu gamni vegna heilsubrests.

Sá siður að íslensku jólasveinarnir taki á móti gestum í Dimmuborgum fyrir jólin hefur nú unnið sér hefð í Mývatnssveit og eru fjölmargir, jafnvel komnir um langan veg, sem gera börnunum það til skemmtunar að fara með þeim í heimsókn til sveinanna í Dimmuborgum.

Tilkoma veitingahúss, Kaffi Borgir, gerir það einnig auðveldara fyrir fólk að gera sér skemmtiferð úr fjarlægari byggðum í Borgirnar. Fleira er í boði nú fram til jóla í sveitinni, svo sem jarðböðin en þar var í dag sölusýningu með mat og heimagert handverk. Einnig er handverkshúsið Mývatnsmarkaður með opið og að sjálfsögðu eru fjölbreyttar veitingar og gisting í boði hjá veitingastöðum sveitarinnar. Allar þessar uppákomur með tilbrigðum verða á dagskrá allar helgar fram til jóla.

Fólk var ánægt að hitta jólasveinana.
Fólk var ánægt að hitta jólasveinana. mbl.is/Birkir Fanndal
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert