Samfylkingarmenn eru sumir afar ósáttir við þá ákvörðun innanríkisráðherra að hafna beiðni um undanþágu vegna kaupa kínverska auðmannsins Huangs Nubos á Grímsstöðum á Fjöllum. Talsmaður Huangs á Íslandi, Halldór Jóhannsson, kvartar undan því að innanríkisráðuneytið hafi ekki svarað tölvuskeytum hans og ráðherra aldrei átt fund með honum eða Huang.
Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, segir menn hafa reynt að hafa frumkvæði en allt sé slegið af, fyrst álver og nú eigi að stöðva kísilverksmiðju með sköttum. „Við vorum svo heppin að fá hingað Huang Nubo sem var tilbúinn að fjárfesta í sveitarfélaginu og taka virkan þátt í að efla ferðaþjónustuna en það verður ekki leyft. Það er ekki laust við að maður verði hugsi.“ Verkalýðsleiðtoginn Aðalsteinn Baldursson segir að ástandið sé farið að líkjast „einelti“ gagnvart Norðurþingi.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra niðurstöðuna óhjákvæmilega vekja spurningar um stjórnarsamstarfið og framhald þess. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir það ekki af þeirri stærðargráðu að það steypi stjórninni.