Sjúkrabílalaust í þrígang

Sjúkrabíll
Sjúkrabíll mbl.is / Hjörtur

Frá því klukkan 18 og til klukkan 21 í kvöld varð þrívegis sjúkrabílalaust í Reykjanesbæ, vegna þess að allir þrír sjúkrabílar bæjarins voru uppteknir í verkefnum. Hrina útkalla hófst um kvöldmatarleytið og urðu þau níu talsins á þremur tímum. Fimm þeirra enduðu með sjúkraflutningi til Reykjavíkur.

Einungis þrír sjúkrabílar eru nú til staðar á Suðurnesjum, en sá fjórði var látinn fara vegna sparnaðar. Á vef Víkurfrétta er haft eftir Jóni Guðlaugssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, að þessi staða, að allir sjúkrabílarnir séu uppteknir á sömu stund, hafi oft komið upp á síðustu dögum og vikum. Sem betur fer hafi þó enn ekkert alvarlegt tilvik komið upp á meðan bílarnir eru allir uppteknir. Hins vegar hafi hurð skollið nærri hælum og sjúkrabílar verið kallaðir út í verkefni um leið og þeir höfðu nýlokið sjúkraflutningi til Reykjavíkur. Þannig kom sú staða upp um daginn, að sögn Víkurfrétta, að næsti bíll var staddur í Hafnarfirði þegar þurfti forgangsakstur frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Hrinan í kvöld hófst að sögn Víkurfrétta þegar tveir sjúkrabílar voru á leið til Reykjavíkur með sjúklinga, en þá barst þriðja útkallið, til Sandgerðis. Þar hafði maður fallið í götuna utan við verslun. Sá var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og svo áfram á Landspítalann. Síðan rak hvert útkallið annað og í þrígang var enginn sjúkrabíll inni á stöðinni. 

Á Suðurnesjum snjóaði hraustlega í kvöld og eru götur því hálar og skyggni takmarkað. Þetta hefur að sögn Víkurfrétta hægt á öllum neyðarakstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert