Hefnd og pólitísk gíslataka

„Viðbrögð forsætisráðherra við kvótafrumvarpi Jóns Bjarnasonar er hefnd og pólitísk gíslataka af hálfu Samfylkingarinnar. Þetta endurspeglar þau átök sem allir landsmenn hafa séð að eru á milli stjórnarflokkanna í stórum málum,“ segir Einar Kr. Guðfinnsson þingmaður Sjálfstæðisflokks og fv. sjávarútvegsráðherra.

Einar segir að eftir synjun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við ósk Kínverjans Huang Nubo, sem vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum og sem Samfylkingin studdi, hafi mátt vera ljóst að flokkurinn færi í gagnhernað á móti VG og tilteknum málum sem flokkurinn leggur fram. „Við höfum séð þessi vinnubrögð fyrr á kjörtímabilinu og nú sé þetta að koma á daginn í þessari nýjustu átakhrinu sem gangi yfir ríkisstjórnina.“

Í hádegisfréttum RÚV gagnrýndi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra  kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra mjög harðlega. Segir frumvarpið fjarri stefnu stjórnarflokkanna í sjárvarútvegsmálum og verði ekki lagt fram sem stjórnarfrumvarp.

„Það er margt í frumvarpinu mjög gagnrýnivert; til dæmis að verði aflaheimildir auknar njóti núverandi kvótahafar þeirra aðeins að hálfu. Það  er gott dæmi um fyrningarleið, því miður. Fleiri atriði mætti nefna, þó sum séu til bóta frá upphaflega frumvarpinu. En vitaskuld hefur ráðherrann haldið spilunum fast að sér og ekki unnið þetta frumvarp með ríkisstjórninni eftir þá hraklegu reynslu sem hann fékk af slíku þegar kvótamálin voru í deiglu sl. vor. Þá voru málin unnin á vettvangi stjórnarflokkanna og án annars samráðs og útkoman var svo herfileg að ég skil ráðherrann vel að hafa ekki viljað leggja í aðra slíka feigðarför," segir Einar sem finnst ríkisstjórnin hafa haldið mjög sérkennilega á sjávarútvegmálunum allt frá því hún tók við völdum, jafnframt því sem stjórnarsamstarfið hafi nær alltaf tíð logað í miklum ágreiningi sem ekki sé lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert