Kveikt var á Oslóarjólatrénu á Austurvelli í dag, en í ár eru 60 ár liðin síðan íbúar Oslóar færðu Reykvíkingum fyrsta grenitréð að gjöf. Í mörg ár hefur verið til siðs að borgarbúar haldi upp á þessa vinargjöf fyrsta sunnudag í aðventu með bæði hátíðlegum söng og skemmtilegum uppákomum og á þessu afmælisári var engin undantekning gerð þar á.
Það er Toril Berge, formaður borgarstjórnarflokks Venstre í Osló, sem færði Jóni Gnarr borgarstjóra og Reykvíkingum tréð að gjöf. Það var hin 8 ára gamla norsk-íslenska Sara Lilja Ingólfsdóttir Haug sem fékk þann heiður að tendra ljósin á trénu.
Það er Eimskip sem frá upphafi hefur flutt Oslóartréð til Reykjavíkur, borgarbúum að kostnaðarlausu. Var tréð hoggið við Finnerud í Nordmarka þann 11. nóvember s.l. og er rúmlega 12 metra hátt. Að venju verður það skreytt fögrum ljósum en í fyrsta sinn mun fimm arma jólastjarna nú einnig prýða topp þess. Stjarnan er smíðuð á Íslandi og sækir hönnun sína til systur-Oslóartrjánna í Rotterdam og London. Grénitréð mun auk þess skarta jólaóróa Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og í ár er það Leppalúði sem horfir íbygginn milli greinanna.
Leppalúði er sjötti óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélagsins og rennur allur ágóði af sölu hans til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenn. Í óróanum fer saman íslenskur menningararfur, ritsnilld og hönnun - ásamt mikilsverðu málefni. Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir og Ingibjörg Haraldsdóttir leggja félaginu lið að þessu sinni með túlkun sinni á Leppalúða – Ingibjörg Hanna yrkir í stálið og Ingibjörg Haralds yrkir málið en nýtt kvæði um Leppalúða verður frumflutt á Aðventuhátíðinni.