„Það er sitthvað í tillögum starfshóps ráðherrans nýtileg en annað alls ekki. Við þurfum hins vegar að fá skýringar ráðherrans á þessu máli og því hvernig það hefur verið unnið,“ segir Björn Valur Gíslason, þingmaður VG.
Megnrar óánægju virðist gæta innan raða Vinstri grænna vegna framgöngu Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra en í gær voru birt á vefsetri ráðuneytis hans skjöl frá starfshópi á vegum ráðherrans sem unnið hefur að endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða.
„Málið er greinilega í allt öðrum farvegi en talið var,“ segir Björn Valur. Hann bendir á að í fyrri viku hafi nokkrum ráðherrum úr báðum stjórnarflokkunum verið falið að fara heildstætt yfir kvótamálin. Enginn hafi hins vegar haft hugmynd um að á vegum ráðherrans sjálfs væri sérstakur hópur að vinna að þessum málum, skipaður mönnum sem væru beinlínis andsnúnir ríkisstjórninni og stefnu hennar. - Í starfshópnum sátu Aðalsteinn Baldursson, verkalýðsleiðtogi á Húsavík, Atli Gíslason alþingismaður, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri á Sauðárkróki.
„Í stjórnmálum verður fólk að fylgja samþykktum og starfa samkvæmt umboðinu sem því er falið. Menn geta ekki farið fram úr sjálfum sér eða tekið sér vald umfram umboð þingflokks síns, eins og nú hefur gerst. Því hlýtur ráðherrastóll Jóns Bjarnasonar að vera farinn að rugga,“ segir Björn Valur og bætir við að farið verði heildstætt yfir þetta mál á þingflokksfundi VG á morgun.