Þetta er ekki stjórnarfrumvarp

Jóhanna Sigurðardóttir á forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir á forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að drög að frumvarpi sem Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra kynnti í gær um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði ekki lögð fram sem stjórnarfrumvarp. Hún gagnrýnir framgöngu ráðherrans harðlega.

Þetta kom fram í viðtali RÚV við Jóhönnu í hádegisfréttum. Jóhanna segir að Jón hafi haldið ríkisstjórninni utan við málið.

„Þetta vinnuskjal eða drög að frumvarpi er alfarið á ábyrgð Jóns Bjarnasonar," segir Jóhanna í samtali við RÚV. „Jón hefur haldið allri ríkisstjórninni og þingflokkunum utan við þessa vinnu þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar um að koma að þessu máli og hunsað aðkomu annarra úr stjórnarliðinu að þessu verki. Þetta eru auðvitað vinnubrögð sjávarútvegsráðherra sem eru algjörlega óásættanleg og ekki boðleg í samskiptum flokkanna."

Jóhanna segir að Jón hafi fyrst kynnt þessi vinnuskjöl á ríkisstjórnarfundi sl. þriðjudag. Ráðherrann hafi þó haldið málinu alfarið hjá sér í þrjá mánuði og ekkert gert með ítrekaðar óskir stjórnarinnar um að fá að koma að málinu. Á ríkisstjórnarfundi á föstudag hafi verið ákveðið að skipa ráðherranefnd til að fara með málið.

„Nú þegar hann kynnir loksins ríkisstjórninni þetta á þriðjudaginn sýnist mér að ráðherrann sé kominn ansi fjarri stefnu flokkanna í sjávarútvegsmálum og ljóst að þetta frumvarp óbreytt verður aldrei lagt fram sem stjórnarfrumvarp,“ segir Jóhanna.

Frétt RÚV

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert