Kostnaður íslenska ríkisins vegna friðargæslu Sameinuðu þjóðanna verður meiri á næsta ári en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í október. Meirihluti fjárlaganefndar leggur til að fjárframlag vegna þessa verði aukið um rúmar 89 milljónir en í frumvarpinu var gert ráð fyrir 341 milljónar króna kostnaði.
Fjárlaganefnd segir, að þessi hækkun stafi af auknum verkefnum friðargæslunnar, sem tengjast m.a. stofnun tveggja nýrra friðargæslusveita í Suður-Súdan og verkefnis í Líbíu sem líklegt þyki að verði samþykkt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á næstu mánuðum.
Nefndin segir, að miklar sveiflur séu í fjárhag alþjóðlegu friðargæslunnar milli ára en verkefnin ákvarðist af heimsviðburðum sem oft sé ekki hægt að sjá fyrir þegar áætlanir séu gerðar.