Landamæraeftirlit við Hafnarfjörð

Amal Tamimi
Amal Tamimi mbl.is

„Ímyndið ykkur að það væri landamæraeftirlit á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og að þú þyrftir að sækja um leyfi með margra mánaða fyrirvara áður en þú gætir farið að heimsækja frænda eða frænku eða jafnvel foreldra.“ Þetta sagði Amal Tamimi varaþingmaður í umræðum á Alþingi um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu.

Amal fæddist í Jerúsalem og var sjö ára þegar Sex daga stríðið braust út árið 1967. „Ég veit hvað hernám þýðir. Ég upplifði hræðilega hluti þegar ég sá og heyrði sprengingar kringum okkur. Ég var hrædd vegna þess að það var ekkert rafmagn. Við vorum í geymslunni undir húsinu okkar. Allir nágrannar okkar voru þar, karlmenn, konur og börn. Sumir vildu flýja frá Jerúsalem, en faðir minn sagði að það væri enginn staður til að fara til. Öll Palestína væri undir yfirráðum Ísraels. Hann missti allt í stríðinu 1948. Hann ákvað frekar að deyja í Jerúsalem en að vera flóttamaður í öðru landi.

Sem betur fer vorum við ekki drepin. Eftir Sex daga stríðið var útgöngubann. Þau sögðu að við mættum ekki fara út úr húsinu vegna þess að þau vildu telja okkur og sjá hvað við værum mörg. Útgöngubannið stóð yfir í um viku tíma.

Bróðir minn, sem kom til Íslands árið 1966 í skoðunarferð, var enn á Íslandi þegar talning fór fram og missti þar með réttindi til að vera í Palestínu. Hann gat ekki komið til baka vegna þess að hann var ekki í landinu þegar Ísrael tók við. Mamma sótti um dvalarleyfi fyrir hann meira en 10 sinnum á þeim forsendum að pabbi væri dáinn og það væri enginn til að sjá um okkur. En það gekk ekki og hann mátti ekki koma aftur til Jerúsalem.

Ísrael var stofnað á þeim forsendum að þeir hefðu verið með landið  fyrir þrjú þúsund árum og þess vegna ættu þeir rétt á að fara til baka, en ekki bróðir minn.“

Amal sagði að flóttakonurnar sem komu til Akraness árið 2008 væru af þriðju kynslóð flóttamanna frá Palestínu. Þær væru ríkisfangslausar.

Amal sagði að þegar hún kom til Íslands árið 1995 hefði hún verið skráð ríkisfangslaus. Hún fékk ríkisborgararétt árið 2002 eftir að hafa sótt um þrisvar. Þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hún hefði haft ríkisfang. Hún sagði það hafa gríðarlega þýðingu fyrir sig að vera með vegabréf. „En ég get ekki farið til Jerúsalem. Samkvæmt lögum í Jerúsalem er ég búin að missa réttindi til að vera Palestínumaður. Ég get farið þangað og dvalið í þrjá mánuði á ferðamannavísa.“

Amal fór til Palestínu í júní og hún sagði að ástandið væri hræðilegt. Hermenn væru út um allt. Ferðalag frá Jerúsalem til Ramallah, sem ætti að taka 15 mínútur, gæti tekið 3-4 klukkutíma. Fólk sem væri á leið í skóla eða vinnu þyrfti að bíða svo lengi til að komast leiðar sinnar.

„Allt sem vantar er mannréttindi og ég vona að með viðurkenningu á Palestínu gefum við fólki frá Palestínu von um bjarta daga,“ sagði Amal.

Síðari umræðu um tillöguna lauk á Alþingi í kvöld en atkvæðagreiðsla fer fram á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert