Frá árinu 2008 til 30. júní 2011 fluttu um 1.500 manns með starfs- og framhaldsmenntun af landi brott umfram aðflutta og 1.200 með háskólamenntun, miðað við þær upplýsingar sem Samtök atvinnulífsins hafa fengið frá Hagstofunni. Lítið lát hefur verið á brottflutningi fólks af landinu á þessu ári.
Upplýsingar um menntun brottfluttra eru ekki tæmandi enda er ekki haldið skipulega utan um þær hjá Hagstofunni, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Tölur um búferlaflutninga segja heldur ekki alla söguna því algengara er að fólk í ýmsum starfsgreinum fari til starfa á Norðurlöndum í stuttan tíma í senn, jafnvel í nokkrar vikur eða mánuði og tilkynni þá ekki búsetuskipti.
Samkvæmt upplýsingum sem Læknafélag Íslands hefur tekið saman fluttu að meðaltali fimm læknar af landi brott í hverjum mánuði á tímabilinu frá maí 2009 til maí 2011.