Fréttaskýring: Miðað við samninga til 20 ára

Unnið hefur verið að gerð frumvarpsins undanfarið í vinnuhópi.
Unnið hefur verið að gerð frumvarpsins undanfarið í vinnuhópi. mbl.is/RAX

Ekki er sérstaklega fjallað um veðsetningu aflaheimilda í vinnuskjali sem sjávarútvegsráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn og hefur að geyma frumvarp til breytinga á núgildandi lögum um stjórn fiskveiða. Miðað er við samninga við núverandi aflamarkshafa til 20 ára og ákvæði eru um hámark aflamarks í einstökum fisktegundum. Unnið hefur verið að gerð frumvarpsins undanfarið í vinnuhópi og var vinnuskjalið sett inn á vef ráðuneytisins síðdegis á laugardag. Ekki var haft formlegt samráð við hagsmunaaðila við undirbúninginn.

Í starfshópnum voru Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar – stéttarfélags, Atli Gíslason, hrl. og alþingismaður, sem sagði skilið við þingflokk Vinstri grænna síðastliðinn vetur, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, og Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK á Sauðárkróki, en það fyrirtæki gerir m.a. út fjóra togara.

Eldra frumvarp lagt til hliðar

Heildstætt frumvarp um stjórn fiskveiða, sem lagt var fram síðastliðinn vetur, hefur verið lagt til hliðar. Það fékk falleinkunn hjá mörgum sem um það fjölluðu, meðal annars starfshópi sérfræðinga sem ráðherra skipaði til að meta hagræn áhrif þess. Í því frumvarpi var sérstök grein um veðsetningar aflaheimilda, en sérfræðihópur ráðherra taldi í skýrslu sinni bann við veðsetningu óráðlegt.

Vinnuskjalið var rætt á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag og föstudag. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að leitast sé við „að ná sem víðtækastri sátt um málefni sjávarútvegsins jafnt utan þings sem innan“.

Veiðigjald í öðrum nefndum

Í athugasemdunum segir að ekki sé talið tímabært að leggja til breytingu á hlutfalli veiðigjalds, álagningarstofni og álagningu frá gildandi lögum. Bent er á að nú sé að störfum nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins, sem ætlað er það hlutverk að fara yfir heildarskattlagningu á sjávarútveg, hvernig rétt sé að skattleggja sérstakan umframhagnað og væntanlega hvernig taka megi tillit til mismunandi stöðu greina innan útvegsins. Þá sé einnig að störfum auðlindastefnunefnd á vegum forsætisráðuneytisins.

Í frumvarpinu er byggt á samningum um nýtingu á aflaheimildum og að þeir verði í upphafi til 20 ára og að nýtingarhafi eigi rétt á endurskoðun samnings sem hefjast skal sex árum fyrir lok gildistíma hans. Heimilt er að framlengja samning um 15 ár hverju sinni. Í frumvarpinu frá í fyrravetur var miðað við samninga til 15 ára og eina endurnýjun til átta ára.

Breytingar eru gerðar á ákvæðum gildandi laga um hámarksaflahlutdeild sem einn aðili getur haft yfir að ráða í hverri fisktegund. Er það gert til að auka samkeppni og koma í veg fyrir frekari samþjöppun í sjávarútvegi en nú er þegar orðin, eins og segir í athugasemdunum. Jafnframt eru hert ákvæði um samstarf og tengsl aðila.

Tilfærsla fjármagns

Í athugasemdunum kemur fram að yfir 80% tekna af veiðigjaldi greiða sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni og tilfærsla fjármagns frá þessum byggðum til höfuðborgarsvæðisins sé veruleg. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjur af veiðigjaldi skiptist þannig að 50% renni í ríkissjóð, 40% til sjávarbyggða og 10% til þróunar- og markaðsmála í sjávarútvegi. Veiðigjald verði einn af lögmæltum tekjustofnum sveitarfélaga og er kynnt frumvarp þess efnis.

Í vinnuskjalinu er lagt til að fari varanlegt framsal aflaheimilda úr byggðarlagi umfram 15% miðað við aflaheimildir í byggðarlagi fiskveiðiárið 2011/2012 geti ráðherra hafnað framsali eða nýtt forgangsrétt til að tryggja að aflaheimildirnar verði áfram á því svæði sem um er að ræða, segir í athugasemdunum. Loks má nefna að lagt er til að kvótaþingi verði komið á að nýju og lagt er til að stofnað verði Kvótaþing Fiskistofu.

„Einn allsherjar kabarett“

Menn í sjávarútveginum eru ekki ánægðir með vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og Jóns Bjarnasonar ráðherra eða eins og Eggert B. Guðmundsson, forstjóri Granda, sagði: „Það sem er sorglegt við þetta er að það er haldið áfram með þau lélegu vinnubrögð sem voru áður. Frumvarpið sem þau komu með í vor var gert án samráðs og fékk alls staðar falleinkunn. Þau lofa bót og betrun en allt fer á sama veg; það er bara farið inn í helli með einhverjum mönnum sem enginn veit hverjir eru og svo birtast þessi drög á netinu. Ef það væri ekki svona mikið undir og mikið í húfi fyrir efnahag landsins myndi maður kalla þetta einn allsherjar kabarett.“

Aðspurður segir Eggert að margt í tillögunum slá sig illilega. „En ég vil ekki vera að koma strax með athugasemdir við einstaka liði, við munum fara yfir þetta í rólegheitunum. Aftur á móti virðist ljóst að þetta verði ekki tillaga ríkisstjórnarinnar, þannig að við bíðum bara áfram eftir því að þetta komist loksins í vitrænt ferli og þá má búast við einhverju sem mark er á takandi.“ borkur@mbl.is

Nefnd stofnuð innan stjórnarinnar

Eftir að Jón Bjarnason hefur lagt tillögur starfshópsins fyrir ríkisstjórnina á þriðjudaginn bregst hún þannig við að á föstudaginn skipar hún Guðbjart Hannesson velferðarráðherra og Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í ráðherranefnd um sjávarútvegsmál en það jafngildir því að margra mati að málið sé tekið úr höndum Jóns Bjarnasonar, eins og Ólína Þorvarðardóttir tekur til dæmis undir. Guðbjartur Hannesson vill ekki taka svo sterkt til orða. „Til svona nefndar innan ríkisstjórnarinnar hefur oft áður verið stofnað til þess að reyna að finna flöt á málinu sem allir geta sætt sig við. Og Jón hefur ekki lagt þetta fram sem sína tillögu, þetta er vinnutillaga sem kemur frá þessari nefnd sem hann skipaði.“

Aðspurður hvort hann taki ekki undir það að þessi vinnubrögð sjávarútvegsráðherrans séu óboðleg, segir hann að vissulega fái ráðherrar alla jafna að fylgjast með því sem er að gerast í svona stórum málum. „En þannig hefur það ekki verið í þessu máli,“ segir Guðbjartur. borkur@mbl.is

„Ráðherra hlýtur að axla ábyrgð“

„Þetta eru stórtíðindi,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í atvinnuveganefnd Alþingis. „Mér sýnist Jón Bjarnason ráðherra vera búinn að taka ákvörðun um að vera ekki í þessari ríkisstjórn. Hann skipar nefnd án þess að aðrir viti af því, hann vinnur í felum fyrir ríkisstjórninni og þegar málið er tekið úr hans höndum á föstudaginn, þá bregst hann við með því að birta frumvarpsdrög á vef ráðuneytisins. Það er alvarlegt mál ef ráðherra fer ekki að vilja ríkisstjórnarinnar. Hann hlýtur að axla ábyrgð á þessum vinnubrögðum,“ segir Ólína. borkur@mbl.is

Líst afar illa á drögin

• Gagnrýnir stuttan samningstíma • Of mikið í pólitískar úthlutanir • Ákveðin ákvæði óskýr og matskennd „Mér líst afar illa á þau frumvarpsdrög sem kynnt hafa verið á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hann segir að fyrirhugaðar breytingar og mikil óvissa hafi áhrif á samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs og lánakjör fyrirtækjanna.

Hann segir að gert sé ráð fyrir allt of stuttum samningstíma eða einungis 20 árum. „Ég bendi á að síðasta vetur kom fram frumvarp um styttingu afnotatíma orkufyrirtækja, sem nýta vatn og jarðhita annars vegar í 30 ár og hinsvegar í 40 ár, sem fékk afar slæmar viðtökur og varð ekki að lögum. Í öðru lagi þá eru ákvæði um framlengingu afnotasamninga ekki nægjanlega skýr. Við þurfum nú að fá mat á því hvort tillögurnar þýða að við þurfum að afskrifa keyptar aflaheimildir að verðmæti 212 milljarða með tilheyrandi afleiðingum á efnahag fyrirtækjanna,“ segir Friðrik.

Hann segir að tillögurnar geri ráð fyrir að allt of stór hluti aflaheimilda verði tekinn framhjá aflahlutdeild til pólitískra úthlutana, m.a. til svokallaðra strandveiða, byggðakvóta og línuívilnunar. Til viðbótar eigi að taka 50% aflaaukningar frá þeim sem hafa tekið á sig skerðingar í þorski, ýsu, ufsa og steinbít þegar ákveðnu viðmiði hefur verið náð, sem sé algjörlega óásættanlegt.

„Þá eru í frumvarpsdrögunum ákvæði sem miða að því að ákveðið fyrirtæki verði brotið upp og eins að ákveðnum fyrirtækjum verði gert að selja frá sér aflaheimildir. Fjölmörg önnur atriði eru í drögunum sem mér líst illa á, s.s. ákvæði um svokallað Kvótaþing, óskýr og matskennd ákvæði um ákvörðun aflahlutdeildar, ákvæði um takmörkun á framsali aflahlutdeildar og aflamarks og mikið framsal á valdi til ráðherra sem full ástæða er til að gjalda varhug við.

Veiðigjaldið, sem er grundvallaratriði, er skilið eftir óleyst en fram kemur að verið sé að vinna að því máli á öðrum vettvangi. Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið í því efni gera ráð fyrir ofurskattlagningu með tilheyrandi lamandi áhrifum á atvinnugreinina,“ segir Friðrik.

Byggðaaðgerðir

» Í byggðakvóta hefur ráðherra heimild til að ráðstafa allt að 10.200 lestum af óslægðum þorski, 1.700 lestum af ýsu, 2.700 lestum af ufsa og 400 lestum af steinbít.
» Tvöföldun er afnumin og úgerðir þurfa því ekki lengur að leggja aflamark á móti byggðakvóta.
» Í línuívilnun getur ráðherra ráðstafað allt að 3.400 lestum af þorski, 2.100 lestum af ýsu og 900 lestum af steinbít.
» Í strandveiði fær ráðherra til úthlutunar á hverju fiskveiðiári allt að 6.800 lestum af þorski og 1.800 lestum af ufsa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka