„Það er alveg ljóst að Ríkisútvarpið heitir Ríkisútvarpið. Það heitir það í lögum og fyrirtækjaskrá,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag þegar hann svaraði fyrirspurn Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um heiti stofnunarinnar.
Mörður sagði stofnunina hafa borið nafn sitt stolt og glöð í áranna rás en nú beri svo við að orðið, Ríkisútvarpið, heyrist sjaldnar í útsendingum, hvort sem er í útvarpi eða sjónvarpi. Af þeirri ástæðu þótti honum rétt að endurvarpa þeirri spurningu sem hljómað hefur töluverð að undanförnu inn í sali Alþingis, þ.e.: Hvað heitir Ríkisútvarpið.
Steingrímur vísaði í lög um Ríkisútvarpið ohf. þar sem heitið kemur fram auk þess sem stofnunin sé þannig lögformlega skráð í fyrirtækjaskrá. Hann sagði ekki vita til þess að ákvarðanir hafi verið teknar um nafnabreytingu, enda sé það ekki hægt.
Þó bætti Steingrímur við og vísaði til erlendra fordæma að algengt væri að fjölmiðlar auðkenndu sig með skammstöfunum. Benti hann á Breska ríkisútvarpið BBC og ríkisútvörp Norðurlandanna, DR, NRK og SVT. Sum þeirra eru hlutafélög líkt og Ríkisútvarpið.
Steingrímur sagðist ekki telja það stríða gegn lögum um stofnunina að taka upp slíkt auðkenni og það sé fyrirtækinu í sjálfsvald sett. Menn geta haft smekk á því hvort slíkt sé við hæfi en stjórnvöld hafi ekki blandað sé í þá umræðu.
Þá sagði ráðherrann að persónulega þætti honum skemmtilegra þegar stofnunin er nefnd fullu nafni. Hitt sé þó alsiða og þyki væntanlega þjálla.