Orðspor Íslands hefur lagast verulega frá því það hrundi til grunna. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á Alþingi í dag. Það hafi farið ört batnandi í tíð ríkjandi ríkisstjórnar og sé á réttri leið líkt og landið allt.
Steingrímur var að svara fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um skatt á stóriðjufyrirtæki. Hann sagði að reynt hefði verið að dreifa byrðunum með sanngjörnum hætti. „Að sjálfsögðu þarf að fara fram í hófsemi og gæta þess að skaða ekki möguleika nýrra fjárfestinga. Og það munum við tryggja,“ sagði Steingrímur.
Þá sagði ráðherrann að hann hefði trú á því að nokkur verkefni fari á fulla ferð á næsta ári, en tiltók ekki hvaða verkefni sé um að ræða. Varðandi þau verkefni sagði Steingrímur þó, að tryggt væri að þau myndu njóta samkeppnishæfra starfsskilyrða.