Starfsmönnum fjölgað vegna eldgosahættu

Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli í fyrra.
Gosmökkurinn frá Eyjafjallajökli í fyrra. mbl.is/Kristinn

Gert er ráð fyrir að starfsmönnum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra verði fjölgað um tvo á næsta ári vegna viðvarandi eldgosahættu. Verður fjárframlag til stofnunarinnar aukið um 20 milljónir króna vegna þessa.

Fram kemur í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, að á undanförnum fjórum árum hafi viðbragðskerfi almannavarna undir stjórn almannavarnadeildar í Samhæfingar- og stjórnstöðinni í Skógarhlíð tekist á við hvert stórverkefnið á fætur öðru á hverju ári: jarðskjálfta 2008, viðbrögð vegna svínaflensu 2009, eldgosin í Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli 2010 og eldgosið í Grímsvötnum 2011. Eftir því sem sérfræðingar segi sjái ekki fyrir endann á eldgosahættu og hættuástandi af þeim sökum.

Ljóst sé að ekki verði lengur við það ráðið að sinna sífellt fleiri og umfangsmeiri verkefnum á sviði almannavarna með eingöngu fimm starfsmönnum. Nú sé svo komið að þessi aðgerðastörf og aðgerðastjórn almannavarnadeildar krefjist svo mikils vinnuálags að starfsmenn ná ekki fullnægjandi hvíld, mikilvæg og brýn verkefni á sviði almannavarna komist ekki til framkvæmda og önnur brýn verkefni á sviði undirbúnings, viðbragðsáætlanagerðar o.fl. hafi frestast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert