Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kom sér undan því að svara spurningum um hvort Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nyti trausts til að gegna ráðherraembætti áfram.
Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím út í stöðu Jóns á Alþingi í dag.
„Það er þannig að ráðherraskipan er ekki útkljáð í ræðustóli á Alþingi,“ sagði Steingrímur. „Það eru þingflokkar sem í fyrstu umferð bera ábyrgð á ráðherrum síns flokks og þeir eru skipaðir þar, oftast að undangenginni tillögu einhvers í viðkomandi flokki. Þangað sækja þeir umboð sitt í fyrstu umferð en auðvitað er það þannig í samsteypustjórnum að svo bera menn líka að vissu marki ábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þannig er það. Slíkt samstarf þarf að ganga upp og byggja á trúnaði í allar áttir. Ég mun ekki taka hér til umræðu í ræðustól á Alþingi hluti sem eiga heima á neðri hæðinni, inni í þingflokksherbergi vinstri grænna,“ sagði Steingrímur.
Steingrímur sagði að ráðherranefnd hefði verið skipuð til að fara með endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og í henni ættu sæti Guðbjartur Hannesson og Katrín Jakobsdóttir. Nefndin myndi hafa samráð við sérfræðinga sjávarútvegsráðuneytisins og sjávarútvegsráðherra. „Þau eru verkstjórar í þessu af hálfu ríkisstjórnarflokkanna tveggja.“
Ólöf sagði athyglisvert að Jón Bjarnason væri ekki í nefndinni og hann væri orðinn vinnuhjú annarra ráðherra í þessu máli.