Jóhannes Haukur Hauksson, einn landeiganda að Grímsstöðum á Fjöllum, segir að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi verið vanhæfur til að úrskurða um sölu á jörðinni vegna fyrri yfirlýsinga um málið. Hann furðar sig á að Ögmundur skuli ekki hafa verið tilbúinn til að ræða við Huang Nubo.
Grímsstaðir á Fjöllum hafa verið til sölu í nokkur ár. Jóhannes segir að allmargir hafi skoða hana og eitt tilboð hafi komið frá innlendum aðila sem ekki gekk upp. Hann segir að fyrst Ögmundi hafi tekist að koma í veg fyrir þessa sölu sé eðlilegt að auglýsa hana á Evrópska efnahagssvæðinu því kaupandi þaðan þurfi ekki að spyrja Ögmund. Á EES búi um 500 milljónir manna og ekki útilokað að þar sé áhugi á jörðinni.
„Ég er ekki sáttur við hvernig að þessu máli var staðið. Þessi stjórnsýsla er með ólíkindum,“ segir Jóhannes. „Ögmundur er með alræðisvald í þessu máli og hann byrjaði strax í fyrsta viðtali að tala niður þessa hugmynd án þess einu sinni að vera búinn að fá umsókn inn á borð til sín. Ég tel að hann hafi með þessum yfirlýsingum gert sig vanhæfan í málinu.“
Jóhannes segir að hann ætli að láta lögfræðinga leggja mat á hvort Ögmundur hafi verið vanhæfur í málinu. Hann bendir á minnisblað frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu þar sem nefnt er að ef umsókninni verði hafnað kunni ríkið að hafa skapað sér skaðabótaskyldu.
Jóhannes gagnrýnir að Ögmundur skuli aldrei í þessu ferli hafa rætt við kaupanda eða seljendur.
„Það eru þrjú atriði í svona máli sem á að taka sérstaklega til skoðunar. Jafnræðislagi reglna stjórnsýslulaga, fordæmin og síðan eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta benti Róbert Spanó prófessor í lögum á að ætti að taka til skoðunar og ekkert annað.
Fordæmin eru þau að á síðustu fjórum árum hafa komið 25 umsóknir um undanþágu frá lögunum. 24 hafa verið samþykktar og einni hafnað á þeirri forsendu að vanti upplýsingar. Fordæmin eru klárlega með þessu.
Í öðru lagi liggur fyrir að 500 manns í Evrópu geta keypt þessa jörð án þess að tala við Ögmund, en þessi maður má ekki kaupa. Þá spyr maður sig á hvaða forsendum er þessi maður verri en maður frá Evrópu.
Í þriðja lagi er eignarrétturinn klárlega okkar og það er verið að skerða eignarréttindi okkar.“
Jóhannes segir að það sé ekki verið að selja 300 ferkílómetra eins og klifað hafi verið á. Ríkissjóður eigi 25% jarðarinnar sem er óskipt og aðrir sem ekki eru að selja eiga 2,8%. Þar að auki hafi Huang lýst sig tilbúinn til að láta vatnsréttindin í Jökulsá eftir og einnig land meðfram ánni.
„Huang lýsti sig líka fúsan til samningaviðræðna við ríkið. Ef ríkið taldi samt að þetta væri of mikið land þá var hugsanlegt að breyta því með samningum. Það var aldrei talað við hann. Staðreyndin er sú að ef Ögmundur hefði talað við hann, þegar fyrir lá að hann var tilbúinn til að semja um hlutina, þá var miklu erfiðara að neita honum. Þess vegna talaði hann ekki við hann.“
Jóhannes hafnar þeim rökum Ögmundar að ef hann hafi fallist á undanþáguna hafi hann í reynd verið að afnema lögin því meginreglan sé að sala á landi til útlendinga utan EES sé bönnuð. Jóhannes bendir á að nánast allar umsóknir útlendinga sem borist hafi um undanþágur frá lögunum hafi verið samþykktar. Útlendingar eigi jarðir á Suðurlandi, í Eyjafirði og víðar, m.a. eigi útlendingur heila laxveiðiá í Mýrdalnum. „Þetta land „sé undir erlendum yfirráðum“ svo notað sé orðalag Ögmundar í úrskurðinum. Þessir menn fengu að kaupa, vandræðalaust,“ segir Jóhannes.
Jóhannes bendir á að ríkið hafi verið í sterkri stöðu til að semja við Huang í þessu máli. Það hafi getað sett skilyrði til viðbótar við þá takmörkun sem felst í því að ríkið eigi 25% í jörðinni í dag. Huang hafi ekki getað byggt eitt hús á jörðinni án þess að bera það fyrst undir ríkið.