Viljum standa vörð um þjónustuna

Landspítali Háskólasjúkrahús Hringbraut.
Landspítali Háskólasjúkrahús Hringbraut. Júlíus Sigurjónsson

,,Við starfsfólk á Landspítalanum viljum minna stjórnvöld á að það er mikilvægt að standa vörð um þessa þjónustu sem hér er veitt," segir Eygló Ingadóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítala.

Efnt hefur verið til mótmæla undir yfirskriftinni ,,hvít mótmæli" á þingpöllum Alþingis þriðjudaginn 29. nóvember klukkan 13.30, þegar önnur umræða um fjárlögin fer fram. Fyrir mótmælunum standa starfsmannafélag, hjúkrunarráð og læknaráð á Landspítala.

Þrátt fyrir aukið álag á starfsfólk í kjölfar niðurskurðar segir Eygló að mótmælin snúist ekki um það heldur að standa vörð um þá mikilvægu þjónustu sem veitt er á Landspítalanum. Í haust hafa að jafnaði verið um 40 biðsjúklingar sem eru með vistunarmat og bíða eftir því að komast á hjúkrunarheimili og segir Eygló að það þurfi eitthvað að gera í þessum efnum.

,,Við erum búin að vera undanfarin ár að hagræða mikið og það hefur gengið ágætlega. Starfsmenn hafa sýnt mikla ábyrgð, hlaupið hraðar og staðið saman í þessum hagræðingum. Nú er svo komið að það er ekki hægt að hagræða mikið meira heldur þarf að skera niður þjónustu. Það felst m.a. í því að legurými leggjast af og miðað við óbreytt ástand skiljum við ekki hvernig það á að vera hægt."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert