Erlendar fjárfestingar mikilvægar

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra mbl.is/Sigurgeir

Ríkisstjórnin samþykkti í dag tillögu til þingsályktunar um erlenda fjárfestingu. Í tillögunni er mikilvægi fjárfestingar í íslensku atvinnulífi áréttað og hvatt til gagnsærrar meðferðar mála er varða erlenda fjárfestingu og skýrra og ótvíræðra reglna um hana, að því er segir í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.

„Um árabil hefur erlend fjárfesting verið lítil hér á landi og fjárfestingarumhverfið verið gagnrýnt fyrir að vera flókið og óaðgengilegt. Fjárfesting er lykilatriði fyrir efnahagsþróun hér á landi eftir hrun. Reynsla undanfarinna áratuga sýnir hversu varhugavert það er að reisa efnahagslíf alfarið á erlendu lánsfé.

Efnahagslegur ávinningur af erlendri fjárfestingu er mun meiri en af innlendri fjárfestingu, byggðri á erlendri lántöku. Þess vegna er sókn eftir erlendri fjárfestingu lykilþáttur í efnahagsþróun norrænna velferðarsamfélaga. Nágrannalönd okkar leggja áherslu á að lagaumhverfi beinnar erlendrar fjárfestingar sé fyrirsjáanlegt og traust og sterkir innviðir styðji við erlenda nýfjárfestingu. Bein erlend fjárfesting skapar ekki einungis störf og verðmæti heldur eykur fjölbreytni í atvinnulífi og í útflutningsgreinum, ef vel er á málum haldið, en aukin fjölbreytni í útflutningsgreinum er mikilvægt markmið,“ segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert