„Ísland sigrar að lokum“

mbl.is

„Stefna Íslands um mikla gengisfellingu og gjaldeyrishöft hefur ekki reynst sú hörmung sem svo margir spáðu,“ segir Ambrose Evans-Pritchard, viðskiptaritstjóri breska dagblaðsins Daily Telegraph, á vef blaðsins. Höfnun Íslendinga á því að taka á sig að fullu tap einkarekinna banka hafi ekki gert það að verkum að enginn hafi viljað koma nálægt landinu.

Evans-Pritchard vísar máli sínu til stuðnings í tölur frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) meðal annars um hagvöxt og atvinnuleysi hér á landi og ber þær saman við ríki innan Evrópusambandsins sem lent hafi í efnahagsþrengingum líkt og Ísland.

Hann segir að Íslendingum hafi tekist að viðhalda félagslegum innviðum samfélagsins. Ef Ísland hefði á hinn bóginn verið hluti af evrusvæðinu hefðu íslensk stjórnvöld neyðst til þess að framfylgja enn meiri niðurskurði og aðhaldsaðgerðum sem meðal annars hefði skilað sér í stórauknu atvinnuleysi.

Pistlinum, sem ber heitið „Ísland sigrar að lokum“ lýkur Evans-Pritchard á þeim orðum að hann hafi ekki getað staðist það að vekja máls á þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka