Álfheiður Ingadóttir alþingismaður sagði á Alþingi í umræðum um fjárlög að það hefði orðið magnaukning á framboði þjónustu sérfræðilækna. Á þessu þyrfti að taka með því að koma á sveigjanlegu tilvísanakerfi.
„Þessu verður að linna,“ sagði Álfheiður og fullyrti að þjónusta hefði færst frá almenna kerfinu út í einkakerfið þar sem væru læknar með stofur eða læknar sem stunduðu aðgerðir utan sjúkrahúsa. Við sparnað í heilbrigðiskerfinu hefði átt sér stað ójafnvægi sem yrði að taka á.
Álheiður sagði að meirihluti velferðarnefndar vildi að komið yrði á sveigjanlegu tilvísanakerfi í heilbrigðiskerfinu til að stuðla að því að sjúklingar leituðu fyrst til heilsugæslunnar áður en þeim væri vísað áfram til sérfræðilækna. Þetta yrði ekki gert á einni nóttu, en marka ætti stefnu í þessa átt.