Mikið áfall ef VG snýr baki við Jóni

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Guðfríður Lilja Grét­ars­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist á Alþingi í dag styðja Jón Bjarna­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, af­drátt­ar­laust. Sagði hún að það yrði mikið áfall fyr­ir VG ef flokk­ur­inn ætlaði að snúa baki við Jóni.

Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, spurði Guðfríði Lilju að því í upp­hafi umræðu um störf þings­ins, hvort hún styddi Jón Bjarna­son en Ragn­heiður Elín sagði, að það hefði vakið at­hygli í gær, að formaður VG hefði ekki getað lýst stuðningi við Jón.

Guðfríður Lilja sagði, að uppá­kom­ur helgar­inn­ar hefðu verið með ólík­ind­um. M.a. hefði verið látið liggja að því, að Jón Bjarna­son væri helsta vanda­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

„Þetta er nátt­úru­lega al­veg dæma­laust. Mér þætti hæst­virt­ur fjár­málaráðherra (Stein­grím­ur J. Sig­fús­son) og hátt­virt­ur formaður þing­flokks­formaður VG (Björn Val­ur Gísla­son) menn að meiri ef þeir af­drátt­ar­laust styddu sinn ráðherra og segðu það hátt og skýrt," sagði Guðfríður Lilja.

Hún sagði að Jón Bjarna­son hefði gegn­um tíðina verið vopna­bróðir þess fólks, sem nú væri í rík­is­stjórn og ekk­ert dregið af sér. „Hann hef­ur staðið manna mest á þeirri grunn­stefnu Vinstri grænna að hafna aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og er lyk­ilmaður í þeim efn­um inn­an VG. Það væri nátt­úru­lega gríðarlegt áfall fyr­ir Vinstri­hreyf­ing­una-grænt fram­boð ef hún ætlaði nú að snúa baki við þess­um ráðherra," sagði Guðfríður Lilja.

Hún sagði að verk Jóns Bjarna­son­ar væru ekki haf­in yfir gagn­rýni frek­ar en vinnu­brögð annarra ráðherra. „Við skul­um þá taka alla ráðherra þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar, all­ar embætt­is­færsl­ur þeirra, öll vinnu­brögð, til ýt­ar­legr­ar skoðunar ef á að taka Jón Bjarna­son sér­stak­lega fyr­ir," sagði Guðfríður Lilja.

Ein­ar K. Guðfinns­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði að sam­kvæmt þessu væru þeir Stein­grím­ur J. Sig­fús­son og Björn Val­ur Gísla­son ekki menn að meiri. Ljóst væri að for­usta VG styddi ekki Jón Bjarna­son sem ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert