Mikið áfall ef VG snýr baki við Jóni

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagðist á Alþingi í dag styðja Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, afdráttarlaust. Sagði hún að það yrði mikið áfall fyrir VG ef flokkurinn ætlaði að snúa baki við Jóni.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Guðfríði Lilju að því í upphafi umræðu um störf þingsins, hvort hún styddi Jón Bjarnason en Ragnheiður Elín sagði, að það hefði vakið athygli í gær, að formaður VG hefði ekki getað lýst stuðningi við Jón.

Guðfríður Lilja sagði, að uppákomur helgarinnar hefðu verið með ólíkindum. M.a. hefði verið látið liggja að því, að Jón Bjarnason væri helsta vandamál ríkisstjórnarinnar.

„Þetta er náttúrulega alveg dæmalaust. Mér þætti hæstvirtur fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) og háttvirtur formaður þingflokksformaður VG (Björn Valur Gíslason) menn að meiri ef þeir afdráttarlaust styddu sinn ráðherra og segðu það hátt og skýrt," sagði Guðfríður Lilja.

Hún sagði að Jón Bjarnason hefði gegnum tíðina verið vopnabróðir þess fólks, sem nú væri í ríkisstjórn og ekkert dregið af sér. „Hann hefur staðið manna mest á þeirri grunnstefnu Vinstri grænna að hafna aðild að Evrópusambandinu og er lykilmaður í þeim efnum innan VG. Það væri náttúrulega gríðarlegt áfall fyrir Vinstrihreyfinguna-grænt framboð ef hún ætlaði nú að snúa baki við þessum ráðherra," sagði Guðfríður Lilja.

Hún sagði að verk Jóns Bjarnasonar væru ekki hafin yfir gagnrýni frekar en vinnubrögð annarra ráðherra. „Við skulum þá taka alla ráðherra þessarar ríkisstjórnar, allar embættisfærslur þeirra, öll vinnubrögð, til ýtarlegrar skoðunar ef á að taka Jón Bjarnason sérstaklega fyrir," sagði Guðfríður Lilja.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að samkvæmt þessu væru þeir Steingrímur J. Sigfússon og Björn Valur Gíslason ekki menn að meiri. Ljóst væri að forusta VG styddi ekki Jón Bjarnason sem ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka