Það er ekki tekið út með sældinni að vera lífeyrisþegi með um 65.000 kr. útborgaðar á mánuði og fá síðan engar greiðslur í einum mánuði vegna mistaka kerfisins.
Kristín H. Tryggvadóttir er 75 ára lífeyrisþegi með lágmarkslífeyri útborgaðan, um 65.000 kr. á mánuði, en áunninn lífeyrir er á fimmta hundrað þúsund krónur á mánuði. Hún greiðir um 240 þúsund kr. á mánuði í dvalarkostnað á Hrafnistu í Hafnarfirði og um 120 þúsund í skatt. Hún segist hafa fengið um 17 þúsund kr. launahækkun á mánuði í sumar fyrir skatt, en í október hafi hún fengið bréf frá Tryggingastofnun þar sem hafi komið fram að það hafi verið mistök að greiða henni hækkunina og því fengi hún nánast enga greiðslu í nóvember.
„Öll kauphækkunin átti að fara til baka til ríkisins,“ segir hún og bætir við að því hafi hún ekki getað keypt jólagjafir handa langömmubörnunum sjö núna í nóvember. Auk þess hafi hún ekki náð að borga fastar greiðslur eins og t.d. fyrir fjölmiðla. „Það er mannréttindabrot að svipta mann svona sjálfræði,“ segir hún í Morgunblaðinu í dag