Fréttaskýring: Sjávarútvegsráðherra á útleið?

Stutt gæti verið í að Jón hverfi af ráðherrabekknum.
Stutt gæti verið í að Jón hverfi af ráðherrabekknum.

Ólíklegt er að samstarf Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í ríkisstjórn sé að líða undir lok þótt átökin hafi verið mikil um helgina. Heimildarmenn töldu að öldurnar hefði lægt nokkuð í gær, ef til vill vegna þess að nú eru fjárlög að dynja yfir og stjórnin aðeins með eins sætis meirihluta á þingi. „Annars veit maður aldrei, við bíðum bara eftir næsta fréttatíma,“ sagði dasaður þingmaður annars stjórnarflokksins.

Sumir flokksfélagar Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og leiðtoga Samfylkingarinnar, segja að hún hefði átt að halda sig til hlés í stað þess að gagnrýna svo harkalega niðurstöðu innanríkisráðherra í Grímsstaðamálinu. Nóg væri að þingmenn NA-kjördæmis fengju að blása í von um að veiða atkvæði á kostnað VG. Hugmyndir Huangs Nubos hefðu verið þokukenndar og ósannfærandi.

En Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auðveldaði spunameisturum Samfylkingarinnar að beina athyglinni annað. Hann skipaði, án þess að ráðfæra sig við nokkurn í þingliðinu, vinnuhóp um breytingar á kvótalögunum og lét síðan birta hugmyndirnar á netinu.

Þetta fór ekki aðeins fyrir brjóstið á samstarfsflokknum, hans eigin flokksfélagar voru margir afar ósáttir. Þótt Jón segði stöðu sína ekkert hafa breyst á þingflokksfundi VG í gær og mannabreytingar á ríkisstjórninni væru ekki fyrirsjáanlegar segja heimildarmenn líklegt að hann muni senn verða að víkja úr ráðherrastólnum. Stól sem hefur reyndar „ruggað“ um skeið, svo að notað sé orðalag þingflokksformanns VG, Björns Vals Gíslasonar.

Fengið nóg af „smáskammtalækningum“ Jóns

Samfylkingarmenn segjast vera búnir að fá nóg af vinnubrögðum Jóns og „smáskammtalækningum“ hans, hvort sem það var skötuselsmálið eða annað. Honum hefði verið nær að taka strax slaginn, hjóla í útvegsmenn af fullu afli. En nú sé hann vinalaus, allir hundóánægðir með tillögur hans. Ekki einu sinni dyggir stuðningsmenn hans í þingflokki VG mæli frammistöðu hans í sjávarútvegsmálunum bót.

Jón segir sjálfur að atlagan gegn sér núna snúist alls ekki um sjávarútvegsmálin, ástæðan sé andstaða hans við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu. Og sumir liðsmenn VG taka undir það sjónarmið.

„Þetta er augljóst, sjávarútvegsmálin eru bara yfirvarp og spuni af hálfu Samfylkingarinnar,“ segir einn heimildarmaður blaðamanns. „Mönnum finnst að Jón sé fyrir, hann spilli samstarfinu og sé til óþurftar. Þetta er ekki bara viðhorf samfylkingarmanna heldur margra í VG. Svo má ekki gleyma að í þingliði flokksins er fullt af fólki sem er mjög metnaðargjarnt og vill ráðherrastól. Það sér að Jón er veikur fyrir og hikar ekki við að beita vígtönnunum, glefsa í hann í von um frama.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka