„Við höfum sagt við skólann að við skiljum að hann sé að fara fram á þetta núna. Þeir færa ágætis rök fyrir því og segjast vera farnir að nota hluta af rekstrartekjum sem eiga að fara í rekstur skólans í að fjármagna það sem skráningargjöldin eiga að gera.“
Þetta segir Lilja Dögg Jónsdóttir, formaður Stúdentaráðs, um þá breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis, að skrásetningargjald í ríkisháskólum verði hækkað úr 45 þúsund krónum í 60 þúsund krónur frá og með háskólaárinu 2012-2013. Hún segir frekar erfitt að kyngja því að skorið sé niður til háskólans á sama tíma og skráningargjöld til stúdenta eru hækkuð. Hækkunin virki eins og skref til skólagjalda.
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra segist hafa farið fram á hækkun skrásetningargjalda að beiðni rektora ríkisháskólanna sem „hafa lagt fram ítarlega greinargerð um að kostnaður sem hefur verið talinn felast í þessu skráningargjaldi hafi hækkað verulega út frá almennri vísitölu“. Sér þætti eðlilegt að leggja til hækkun í ljósi þess að námslán hafa hækkað um þriðjung á tveimur árum og gjöldin ekki hækkað síðan 2005.