Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir fráleitt að láta eins og Jón Bjarnason, eða nokkur annar núsitjandi ráðherra, sé ómissandi af ráðherrastóli. Þetta kemur fram á bloggvef þingmannsins.
„Ýmsu hefur nú verið snúið á haus í umræðunni um vinnubrögð Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Nú halda einhverjir því fram að Samfylkingin og Jóhanna Sigurðardóttir ætli að tefja lyktir fiskveiðistjórnunarmálsins með því að velta Jóni úr sessi. Ekkert er fjær sanni.
Frá því að frumvarp Jóns var sent aftur til ráðuneytisins með athugasemdum fyrir rúmum tveimur mánuðum hefur hann látið vinna málið á bak við ríkisstjórnina, í einhverskonar leyndarmyrkri, án aðkomu nokkurs samverkamanns í stjórnarliðinu. Afrakstur þeirrar vinnu er ekki í samræmi við stefnumið stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum og kemur enganveginn til móts við þær ábendingar sem hans eigin samherjar hafa gefið honum um framhald málsins,“ skrifar Ólína.
Hún segir það undarlegt að hlusta nú á velunnara Jóns rugla saman persónulegri og pólitískri stöðu hans – eins og það komi þessu máli eitthvað við hversu lengi hann hefur verið „vopnabróðir“ innan VG eða „barist fyrir málstaðinn“.
„Með fullri virðingu: Hvað mega þau þá segja, hinir ráðherrarnir sem hurfu úr ríkisstjórninni fyrr á þessu kjörtímabili? Höfðu þau engan málstað? Voru þau einskis manns vopnasystkin? Stóðu þau ekki fyrir neitt, Álfheiður Ingadóttir og Kristján Möller – eða hinir ágætu óflokksbundnu ráðherrar Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir sem bæði höfðu staðið sig vel? Voru þau ekki vopnasystkin og samverkamenn í mikilvægu verkefni?
Það er ekki hægt að láta svona. Ráðherrar eru auðvitað ekki eigin herrar. Þeir starfa í umboði þingmeirihluta og samstarfsmanna í ríkisstjórn. Málið snýst ekki um þeirra persónulega ágæti, heldur um störf þeirra, stefnu og starfsaðferðir. Allir þingmenn stjórnarflokkanna eru þess umkomnir að verða ráðherrar, og sama má segja um fjölmarga hæfa einstaklinga úti í samfélaginu sem geta lagt gott af mörkum sé eftir því leitað. Maður kemur alltaf í manns stað,“ skrifar Ólína.