Frumvarp um IPA-skattleysi lagt fram

mbl.is/Ómar

Fjár­málaráðherra lagði í dag fram frum­varp um að svo­nefnd­ir IPA-styrk­ir frá Evr­ópu­sam­band­inu verði ekki skattlagðir hér á landi, í sam­ræmi við samn­ing við ESB þar að lút­andi.

Í frum­varp­inu er mælt fyr­ir um ýms­ar und­anþágur til að hægt sé að upp­fylla ramma­samn­ing milli Íslands og fram­kvæmda­stjórn­ar ESB sem var áritaður í byrj­un júlí sl.

Mega ekki vera skatt­skyld­ir 

Mark­mið IPA-styrkja (Instrument for Pre-Accessi­on Ass­ist­ance) er að styrkja innviði um­sókn­ar­ríkja ESB, að því er seg­ir í frum­varp­inu. Um þessa styrki gild­ir reglu­gerð ESB frá 2007 þar sem m.a. er kveðið á um þá meg­in­reglu að IPA-styrk­ir skuli ekki ganga til greiðslu skatta og gjalda hjá um­sókn­ar­ríkj­um sam­bands­ins. 

Einnig kem­ur fram að í samn­ingn­um frá júlí sl. sé gerð krafa um að IPA-aðstoð renni óskipt til þeirra verk­efna sem henni er ætlað að styðja en ekki til greiðslu skatta, tolla eða annarra gjalda af sam­bæri­leg­um toga. 

Fimm millj­arðar

Í um­sögn fjár­laga­skrif­stofu fjár­málaráðuneyt­is­ins um frum­varpið  kem­ur fram að IPA-styrk­ir til Íslands geti numið allt að 30 millj­ón­um evra eða um fimm millj­örðum ís­lenskra króna vegna tíma­bils­ins 2011 til 2013. Um sé að ræða verk­efni sam­kvæmt sér­stakri landsáætl­un sem ís­lensk stjórn­völd hafa gert og ESB fall­ist á. 

Ekki hef­ur verið lagt mat á það hvað und­anþágur þær sem mælt er fyr­ir í frum­varp­inu gætu þýtt í minni skatt­tekj­um rík­is­sjóðs frá því sem ann­ars hefði orðið. Í um­sögn fjár­laga­skrif­stof­unn­ar seg­ir að slíkt mat væri afar erfitt, m.a. vegna þess að ekki lægi fyr­ir hvernig verk sem unn­in verða með IPA-styrkj­um muni skipt­ast á milli inn­lendra og er­lendra aðila.

„Mat á tekjutapi á auk þess tæp­ast við því IPA-styrk­irn­ir eru veitt­ir með því skil­yrði að vera und­anþegn­ir skött­um og op­in­ber­um gjöld­um og mundu ekki ber­ast ef ekki kæmi til skatt­frelsið. Má frek­ar gera ráð fyr­ir því að rík­is­sjóður muni hafa tekj­ur af þess­um styrkj­um með óbein­um hætti ef ESB-verk­tak­ar verða inn­lend­ir aðilar,“ seg­ir í um­sögn­inni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert