Dómur um meiðyrði sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun er sá fyrsti hér á landi þar sem maður er dæmdur fyrir ummæli á samskiptasíðunni Facebook. Var maðurinn dæmdur til að greiða stefnanda 300 þúsund krónur í bætur auk málskostnaðar fyrir ummæli sem hann viðhafði bæði á bloggsíðu sinni og Facebook-síðu um fjölskyldu í Aratúni í Garðabæ.
Að sögn Gunnars Inga Jóhannssonar, héraðsdómslögmanns, er þetta líklega fyrsti dómur af þessu tagi sem fellur vegna ummæla á Facebook á Íslandi þó hann sé ekki sá fyrsti þar sem ábyrgð á ummælum á Netinu var til skoðunar. Engin ástæða sé til að gera greinarmun á ummælum þó þau séu sett fram á Facebook, um síðuna gildi sömu reglur og um aðrar netsíður. Í þessu tilfelli gilda almennar reglur um ábyrgð.
„Það er ekki deilt um að stefndi sé höfundur ummælanna, þá er bara spurning hvort þau teljist vera meiðyrði eða birting þeirra réttlætanleg. Fólk ber alla jafna ábyrgð á eigin ummælum hvar sem þau birtast. Það er svona meginreglan,“ segir Gunnar Ingi.
Þá hefði ekki skipt máli þó ummælin hefðu verið látin falla í lokuðum hópi (e. group) á Facebook því ummælin teldust birt engu að síður. Á sama hátt sé hægt að kæra fyrir meiðyrði þó þau séu látin falla í tveggja manna tali.
Bloggummæli dæmd dauð og ómerk.