Lægir smám saman og dregur úr ofankomu

Norðanátt, 8-18 sekúndumetra, verður á landinu fram á daginn, hvassast á norðausturhorninu. Él norðaustantil, með norðurströndinni og á Suðausturlandi, annars yfirleitt bjartviðri.

Lægir smám saman og dregur úr ofankomu, yfirleitt hægur vindur síðdegis, úrkomulaust og bjart á köflum. Frost 3 til 14 stig, kaldast inn til landsins. Suðaustan 5-10 og él á Vestfjörðum seint í kvöld.

Á höfuðborgarsvæðinu verður norðaustan 5-10 m/s, en 3-8 með morgninum. Bjartviðri og frost 3 til 10 stig.

Um 400 km norðaustur af Langanesi er 958 mb lægð sem fer austur og síðar norðaustur, en 200 km suður af Vestmannaeyjum er 982 mb lægð sem þokast suðaustur. Um 500 km vestur af Snæfellsnesi er 991 mb vaxandi smálægð sem fer hægt austur.

Á morgun, fimmtudag, er útlit fyrir 5-13 sekúndumetra suðvestan- og vestanátt. Snjókoma og síðar él um landið vestanvert, og einnig dálítil ofankoma á austanverðu landinu seinnipart dags. Frost 3 til 12 stig, kaldast í innsveitum norðaustantil.

Klukkan þrjú í nótt var norðlæg átt á landinu, 8-18 m/s, hvassast á norðausturhorninu. Dálítil él norðantil, annars léttskýjað á köflum. Frost 1 til 9 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert