Félagsstofnun stúdenta hyggst endurvekja Stúdentakjallarann í viðbyggingu sem byggð verður við Háskólatorg á næsta ári. Torgið sjálft verður einnig stækkað.
Stúdentakjallarinn var opnaður árið 1975 og var rekinn í rúm 30 ár í tengibyggingu á milli Stúdentaheimilisins við Hringbraut og Gamla Garðs. Þegar Háskólatorg var tekið í notkun, árið 2007, var Stúdentakjallaranum lokað og húsnæðinu breytt í kennsluhúsnæði.
Rætt hefur verið að undanförnu um hvort og hvar væri hægt að endurvekja Kjallarann, og hefur Stúdentaráð Háskóla Íslands unnið ásamt FS í að finna heppilega staðsetningu.
Félagsstofnun stúdenta hefur nú ákveðið að byggja nýjan Stúdentakjallara. Verður hann í um 400 fermetra húsnæði og er stefnt að því að staðurinn verði opinn frá morgni til kvölds alla daga vikunnar og þar verði aðstaða fyrir tónleika, fundi og annað félagslíf stúdenta, en staðurinn verður jafnframt veitingastaður og kaffihús á daginn.
Gert er ráð fyrir að byggingarframkvæmdir hefjist snemma vors 2012 og hefur FS alla umsjón með framkvæmdinni. Stefnt er að því að nýi Stúdentakjallarinn verði opnaður að ári, hinn 1. desember 2012.