Telur Gunnar hafa brotið lög

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins mbl.is/Árni Sæberg

Brynjar Nielsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, telur að Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafi gerst brotlegur við lög því ekkert sé til sem heitir óvirkur stjórnarmaður. Þetta kemur fram í grein sem Brynjar hefur ritað á vef Pressunnar.

„Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um málefni Gunnars Andersens, forstjóra Fjármáleftirlitsins (FME), vegna aðkomu hans að aflandsfélagi í eigu Landsbanka Íslands. Gunnar hefur svarað gagnrýni á þessa þátttöku sína í félaginu með því að hann hafi einungis verið óvirkur stjórnarmaður. Í félagarétti er ekkert til sem heitir óvirkur stjórnarmaður. Sá sem gefur kost á sér í stjórn félags ber fulla ábyrgð á athöfnum sínum og athafnaleysi. Þátttaka í stjórn hlutafélags felur í sér eftirlitsskyldur með rekstri félagsins. Með því að vera óvirkur stjórnarmaður er viðkomandi að taka ákvörðun um að sinna ekki þeirri eftirlitsskyldu. Slík vanræksla er brot á lögbundnum skyldum stjórnarmanna í félögum. 

Það verður því ekki annað séð en að forstjóri FME hafi viðurkennt að hafa ekki sinnt skyldum sinum sem stjórnarmaður. Það segir hins vegar ekki endilega um hvort sú vanræksla hafi verið refsiverð og ekki veit ég hvort starfsemi þessa aflandsfélags hafi verið ólögleg og refsinæm. Aftur á móti virðist FME telja að stofnun og starfsemi slíkra aflandsfélaga hafi verið almennt ólögmæt og refsiverð með hliðsjón af öllum þeim kærum sem komið hafa frá þeirri ágætu stofnun. Það er því óneitanlega athyglisvert að FME skuli hafa forstjóra sem er í sömu  eða svipaðri stöðu og þeir eru í sem kærur beinast að,“ skrifar Brynjar.

Sakar FME um fúsk

Brynjar segir málatilbúnað FME einkennist því miður í of mörgum tilvikum af vanþekkingu, fljótfærni og röngum ályktunum eins og alltaf er hætta á þegar ekki fylgt grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins um rannsóknarskyldu, andmælarétt ofl. „Niðurstaðan er sú að við sitjum uppi með tæplega 300 manns með réttarstöðu grunaðs manns. Slík niðurstaða ber ekki vott um færni heldur fúsk,“ skrifar Brynjar í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert