Tvö landsvæði án ljósleiðara

Ljósleiðari lagður í Reykjavík.
Ljósleiðari lagður í Reykjavík. Ómar Óskarsson

Tvö landsvæði með yfir 5.000 íbúa eru án ljósleiðarahringtengingar, Vestfirðir og Snæfellsnes, að því er segir í frumvarpi að 12 ára fjarskiptaáætlun sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Kemur þetta til af því að fjarskiptafyrirtæki meti arðsemi ónóga til þess að réttlæta nauðsynlegar fjárfestingar. Samkvæmt frumvarpinu kostar um 270 milljónir króna að hringtengja svæðin með ljósleiðara. Segir frá þessu á fréttamiðlinum bb.is.

„Almennt er það verkefni fjarskiptafyrirtækja að bjóða fjarskiptaþjónustu á samkeppnisforsendum og koma upp nauðsynlegum lögnum til að veita þjónustuna. Á hinn bóginn eru þær aðstæður fyrir hendi þar sem markaðsbrestur er og kemur þá til af því að fjarskiptafyrirtæki meta arðsemi ónóga til þess að réttlæta nauðsynlegar fjárfestingar. Gert hefur verið lauslegt kostnaðarmat á því að tengja ótengda byggðakjarna annars vegar og hins vegar landsvæði sem ekki eru hringtengd,“ segir í frumvarpinu.

Samkvæmt lauslegri kostnaðaráætlun myndi kosta 320 milljónir að ljósleiðaratengja alla ótengda byggðakjarna með einni tengingu. Samkvæmt frumvarpinu skal á árunum 2011-2022 vera unnið að fjarskiptamálum í samræmi við áætlunina sem felur í sér stefnumótun í fjarskiptamálum og helstu markmið sem vinna skal að, og þannig lagður grunnur að framþróun íslensks samfélags.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert