Sveitarstjórn Bláskógabyggðar andmælir því að Hagavatnsvirkjun verði sett í biðflokk í rammaáætlun og mælist eindregið til þess að virkjunin verði í staðinn færð upp í orkunýtingarflokk. Hreppsnefnd Hrunamannahrepps tekur undir þetta með Bláskógabyggð. Kemur þetta fram á fréttavefnum Sunnlenska.is.
Bláskógabyggð og Landgræðslan létu vinna mat á umhverfisáhrifum þess að hækka vatnsborð Hagavatns með því að stífla Farið, í þeim tilgangi að hefta sandfok og endurheimta gróðurþekju á nærliggjandi svæðum. Þá hefur sveitarstjórn hug á að nýta þá framkvæmd til orkuframleiðslu til að auka hagkvæmni hennar. Útfærsla virkjunarinnar á að vera umhverfisvæn. Ætlunin er að rennslisvirkjun við Hagavatn verði nýtt til að tryggja stöðugra vatnsyfirborð ofan stíflu, rafmagnstengingar verði að mestu í jarðstrengjum og vegslóðar og reiðleiðir samræmd til að stemma stigu við utanvegaakstri.
Í frétt Sunnlenska segir að sveitarstjórnin leggi áherslu á að með framkvæmdinni sé verið að endurheimta fyrra horf Hagavatns, hefta jarðvegsfok, auka möguleika á landgræðslu og auka lífsgæði íbúa á áhrifasvæði uppfoksins. Umhverfis- og skipulagsnefnd SASS hefur líka ályktað í þá veru að vatnsyfirborð Hagavatns verði fært til upprunalegs horfs.
Ráðgert er að uppsett afl Hagavatnsvirkjunar verði 20 MW og að áhrifasvæði hennar nái yfir ferðasvæðin Hagavatn, Hveravelli, Hrunamannaafrétt og Gullfoss.