Heimildarmenn segja líklegt að uppstokkun verði í ríkisstjórninni fyrir áramót og stefni oddvitar stjórnarflokkanna að því að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra víki.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að stuðningsmenn Jóns eru margir ævareiðir. Segja þeir andstöðu hans við umsókn um aðild að Evrópusambandinu raunverulegu ástæðuna fyrir atlögu gegn honum.
Hópur stuðningsmanna ráðherrans birtir í blaðinu í dag heilsíðuauglýsingu um málið. Meðal þeirra sem rita undir eru tveir fyrrverandi ráðherrar, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson, einnig Árni Steinar Jóhannsson og Helgi Seljan, báðir fyrrverandi þingmenn.