Í lok október 2011 hafði lögmannsstofan sem sér um innheimtu krafna Landspítalans hjá þeim sem búa á Íslandi stefnt 644 einstaklingum fyrir héraðsdóm vegna krafna frá 2007–2010. Lágmarksfjárhæð kröfu til að lögmannsstofan stefni viðkomandi er 50.000 kr.
Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Hreyfingarinnar, um kostnað sjúklinga við heilbrigðisþjónustu og innheimtu.
Í svarinu kemur fram að sjúklingum hafi aldrei verið neitað um heilbrigðisþjónustu vegna skulda. Almenna reglan sé sjúklingar greiði eftir á og þeir sem ekki geti greitt á staðnum sé sendur gíróseðill. Dæmi er um að sjúklingar á skurðdeild hafi verið látnir greiða fyrir fram þar sem þeir eru oftast undir áhrifum svæfingar- eða deyfilyfja í nokkurn tíma eftir aðgerð.
Landspítalinn sendi í innheimtu kröfur á árunum 2007-2010 sem samtals námu um 108 milljónum. Upphæðin var 20 milljónir árið 2007, 17 milljónir árið 2008, 38,4 milljónir árið 2009 og 32,5 milljónir árið 2010.
Birgitta spurði um afstöðu ráðuneytisins til innheimtu vegna skulda í heilbrigðisþjónustunni. „Lýsa má afstöðu gamla heilbrigðisráðuneytisins, nú velferðarráðuneytisins, þannig að opinberar heilbrigðisstofnanir eigi ekki að neita sjúkratryggðum um heilbrigðisþjónustu, þótt þeir geti ekki greitt hana þegar hún er veitt, og að ekki eigi að ganga hart fram við innheimtu skulda vegna heilbrigðisþjónustu gagnvart þeim sem eru illa settir fjárhagslega,“ segir í svarinu.