„Ég fæ reglulega fyrirspurnir um það hvaða ávinning við höfum af þessu samstarfi og hvort í því felist hættur að treysta á landamæraeftirlit annarra Schengen-ríkja,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag en hann ásamt átta öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur óskað eftir því við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra að hann láti vinna skýrslu um reynslu Íslands af aðildinni að Schengen-samstarfinu og kosti og galla þess fyrir þjóðina að vera aðili að því.
Samstarfið gengur í stuttu máli út á að hefðbundið landamæraeftirlit er fellt niður á milli aðildarríkja þess en þess í stað styrkt á ytri landamærum svæðisins en í greinargerð með beiðni þingmannanna segir að nú þegar áratugur sé síðan Ísland varð aðili að Schengen-samstarfinu sé nauðsynlegt að meta stöðu Íslands innan þess og bent á að takmarkað vegabréfaeftirlit með þegnum þeirra ríkja sem aðild eiga að samstarfinu hafi sætt nokkurri gagnrýni.
„Rétt er að gera úttekt á því hverjir eru helstu kostir og gallar við samstarfið fyrir Íslendinga sem og hver ávinningur þjóðarinnar er af þátttökunni samanborið við að standa utan samkomulagsins og sinna verkefnum þess sjálf. Í því sambandi er nauðsynlegt að lagðar verði fram upplýsingar um þann kostnað sem aðild Íslands að Schengen-samstarfinu hefur haft í för með sér fyrir ríkissjóð frá því að samkomulagið tók gildi. Jafnframt að lagt verði mat á það hver kostnaður ríkissjóðs af því eftirliti sem Schengen-samstarfið mælir fyrir um væri stæði Ísland utan samkomulagsins,“ segir ennfremur í greinargerðinni.
Þá segir að nauðsynlegt sé við gerð skýrslunnar að lagt verði mat „á mikilvægi aðgangs íslensku lögreglunnar að upplýsingum sem Schengen-samstarfið tryggir og mikilvægi samstarfs íslensku lögreglunnar við erlend lögregluyfirvöld á grundvelli þess“.